Franskir bílaframleiðendur virðast alveg með það á hreinu að sparneytnir bílar sem eru með lítinn koltvísýringsútblástur eru það sem hinn almenni kaupandi er á höttunum eftir. Jú, og ódýrir verða bílarnir að vera líka.
Citroën hefur tekist vel upp hvað þessi atriði varðar. Það vel að hinn 7 manna Citroën Grand C4 Picasso eyðir ekki nema um 4-5 lítrum á hundraðið og hann fellur undir það að vera visthæfur þar sem Co2 gildið eru undir 120g/km, eða 105g/km. Það er ánægjulegt að svo stórir bílar geti verið með svona heppilegar tölur í þessum flokkum. Í tilviki Citroën Grand C4 Picasso kemur það raunar niður á öðrum tölum, t.d. er hann dágóða stund að komast úr kyrrstöðu upp í hundrað, eða góðar 12,6 sekúndur. Lipur er hann í það minnsta ekki.
Þeir sem vilja bíl sem kemst á örfáum sekúndum upp í hundrað vita að sjálfsögðu hvar þeir leita að slíku tæki. Það eru eflaust ekki þeir sömu og þurfa að koma fimm krökkum og fylgihlutum fyrir í einu og sama farartækinu. Þess vegna ætla ég ekki að eyða púðri í að fjalla um snerpu. Í vor var gerð rækileg úttekt á 7 manna bílum í bílablaði Morgunblaðsins. Þar kom á óvart hversu margir bílar standa stærri fjölskyldum til boða á bílamarkaðnum hér á landi. Sá ódýrasti er Chverolet Orlando sem kostar frá 3.890.000 kr. Næstu tveir 7 manna bílarnir í röð þeirra ódýrustu eru seldir hjá Brimborg en það eru Ford Grand C-Max kost-ar 4.050.000 kr. og Mazda 5 frá 4.090.000 kr. Grand C4 Picasso kostar 4.390.000 kr. beinskiptur og 4.590.000 kr. sjálfskiptur og tilheyrir því ódýrasta flokki 7 manna bíla. Leyfi ég mér að mæla með þeim beinskipta fyrir þá sem ekki eru vanir eða spenntir fyrir ETG6-skiptingunni en hún er sannarlega sérstök og krefst þolinmæði sem foreldrar fimm barna eiga kannski ekki til. Í rauninni er ETG6 tölvustýrður 6 gíra kassi án kúplingsfetils. Hugmyndin og raunin (þegar ökumaður hefur náð tökum á skiptingunni) er sú að hann kassinn skipti sér alltaf við besta snúning með tilliti til eyðslu. Það sem gæti gerst, ef maður er ekki búinn að finna taktinn innra með sér við skiptinguna, er að bílstjóri gæti skallað stýrið sé gefið of mikið í. Þá rykkir nefnilega vel í. En ætli það væru ekki mistök sem einungis væru gerð einu sinni. Það var ekki prófað í þessum reysluakstri!
Daginn sem Citroën myndi framleiða fjölnotabíl sem væri fullkomlega „venjulegur“ útlits yrðu einhverjir eflaust undrandi. Hönnuðunum tekst nefnilega iðulega að koma manni á óvart með hverju trompinu á fætur öðru og þar er C4 Grand Picasso engin undantekning. Hann er framúrstefnulegur með fögrum framljósum og snyrtilegu grilli. Línurnar eru áberandi og hönnunin einföld og stílhrein. Framrúðan er töluvert stærri en gengur og gerist og það er eiginlega alveg frábært. Það er ekki bara bílstjórinn sem græðir á því heldur allir farþegarnir því rúðan nær langt upp, yfir höfuð ökumanns. Fyrir vikið er nokkuð bjart inni í bílnum, þ.e. í dagsbirtu.
Sætin eru öll stillanleg og eru niðurfellanleg borð í sætisbökunum sem ég veit að ungum farþegum þykir ljómandi skemmtilegt. Í heildina litið er C4 Grand Picasso vel búinn fjölskyldubíll sem óviljandi sér til þess að ökumaður haldi sig á skikkanlegum hraða. Bjart og gott rýmið nýtist vel í þessum sparneytna og áhugaverða bíl. Þeir sem vilja bera verð og gæði 7 manna bíla ítarlega saman geta fundið umfjöllunina inni á bílavef blaðsins, www.mbl.is/bill, en umfjöllunin þar er frá 21. maí 2014.
malin@mbl.is