Bílabúð Benna hóf nýlega aftur sölu á SsangYong-bílum og kynnti aftur til sögunnar Rexton-jeppann, en einnig nýlegan jeppling sem ekki hefur sést hér áður og kallast Korando.
Eflaust kannast þó margir bílaáhugamenn við nafnið og sjá þá fyrir sér jeppa, eins og Jeep CJ-7-eftirlíkinguna sem seld var hér í eina tíð, eða Korando-jeppann sem kom hér 1996 og var byggður á styttri grind Musso-jeppans. Því er þó ekki að heilsa í þetta skiptið því að jeppinn er orðinn jepplingur.
Jepplingurinn er í raun og veru þriðja kynslóð Korando og kom sem slíkur fyrst fram á sjónarsviðið árið 2010. Stutt er síðan hann fékk andlitslyftingu og er það sú gerð hans sem er kynnt fyrir íslenskum kaupendum. Bíllinn mun keppa við jepplinga eins og Kia Sportage, Nissan Qashqai og Suzuki S-Cross. Við fyrstu viðkynningu er hann þó ekki eins nýtískulegur og þeir og þá sérstaklega innandyra. Staðalbúnaður hans er ekki eins mikill og í keppinautunum sem allir keppast við að vekja áhuga ört vaxandi kaupendahóps. Mest ber á hörðu plasti í innréttingu sem mun láta á sjá við notkun. Ekki er tæknin heldur hans sterka hlið því að blátannarbúnaðurinn er af gamla skólanum og afskaplega leiðinlegur í notkun. Samt er margt gott við Korando innandyra, og er þá helst að telja gott pláss fyrir farþega og þægindi. Hliðarhurðir hans opnast vel og eru stórar svo að auðvelt er að ganga um hann. Stýrið er með aðdrætti sem er alltaf kostur og sætin er mátulega stór og þægileg. Aftursæti eru rúmgóð og þökk sé miklu hljólhafi og flötu gólfi er fótapláss gott og það fer því vel um þrjá fullorðna. Auk þess er hægt að stilla halla á sætisbaki aftursæta. Farangursrýmið skortir ekki pláss og er stærra en hjá keppinautunum eða 486 lítrar og með því að fella niður aftursætin má stækka það í 1.300 lítra.
SsangYong Kornado er fyrsti einrýmisbíllinn frá kóreska bílaframleiðandanum, sem þýðir einfaldlega fyrsti bíllinn sem hann smíðar sem er ekki á grind. Kannski einmitt þess vegna er hann ekki vel heppnaður sem akstursbíll því að fjöðrunin er helst til of mjúk og hann leggst nokkuð í beygjurnar. Stýrið gefur ekki mikla tilfinningu fyrir akstrinum en vélin er öflug og togmikil með mikla dráttargetu. Fyrir vikið verður hann góður kostur fyrir þá sem vilja draga stærri eftirvagna. Það er helst að hún sé of hávær þegar reynt er á hana og eins er veghljóð hans á þjóðvegi nokkuð mikið. Okkur gafst tækifæri til að reyna bílinn lítilsháttar á grófum malarvegi og þar stóð hann sig öllu betur, því að mjúk fjöðrunin át upp allar holur og steina. Hann er einnig nokkuð öflugur af jepplingi að vera í torfærum, ekki aðeins fyrir öfluga vélina heldur líka þokkalega veghæð og þá staðreynd að hægt er að læsa fjórhjóladrifinu í 50/50-hlutföllum.
Spurningin er hvernig Korando stendur sig gagnvart samkeppninni en hann er víða erlendis ódýrari en helstu keppinautarnir. Grunnverð hans er sama og á Nissan Qashqai, 4.990.000 kr. og Suzuki S-Cross er örlítið dýrari á 5.190.000 kr. með dísilvél. Báðir eru þeir reyndar með minni 1,6 lítra vélar en á móti kemur talsvert betri búnaður. Eini keppinautur hans sem boðinn er með tveggja lítra vél er Kia Sportage, en hann er töluvert dýrari á 5.990.777 kr. Stendur því Korando sig ágætlega í verðsamanburði þótt hann geri það ekki í samanburði á staðalbúnaði og nýtur hann þess einnig í samanburðinum að vera með öflugustu vélina.
njall@mbl.is
Kostir: Pláss fyrir farþega, öflug vél
Gallar: Innrétting, búnaður, hávær vél