Opel Zafira getur talist góð viðbót við úrval 7-manna bíla á markaðnum. Bæði er hann á ágætu verði og er prýðilega vel búinn.
Hann er ekki ódýrasti 7-manna bíllinn á markaðnum en gæti talist til næstódýrasta flokksins. Á móti kemur að í grunninn er bíllinn býsna vel búinn.
Fyrsta kynslóð Opel Zafira kom á markað árið 1999, önnur kynslóð árið 2005 og sú þriðja árið 2011. Það er því þriðja kynslóð bílsins sem fáanleg er núna og var prófuð um helgina.
Bílstjóri og farþegi í framsæti geta látið fara vel um sig í óþrjótandi rýminu. Dyrnar eru mjög stórar (líka að aftan) og er auðvelt að komast inn í bílinn, enda gengið beint inn og ekkert klifur. Sætin eru þægileg og hægt að stilla nokkuð margvíslega. Það sama gildir um leðurklætt stýrið sem bæði má stilla hæð á og færa fram og aftur.
Vel fer um farþega í aftursætunum, þ.e. á „öðrum bekk“ því þetta er jú 7-manna bíll. Í öftustu sætunum tveimur gæti farið þokkalega um gríslinga en sennilega er of lítið rými fyrir unglinga nema í styttri bíltúra, eða eins og sumir segja: „Til að komast á milli A og B.“
Þess ber að geta að engar tilraunir voru gerðar, hvorki með gríslinga né unglinga, þannig að hér er aðeins um ályktun undirritaðrar að ræða út frá rýmisgreind og tilfinningu.
Í heild má því segja að bíllinn sé mjög þægilegur og rúmgóður, einkum og sér í lagi fyrir fimm manns. Tvö smælki geta vel bæst við án þess að þrengi að hinum fimm.
Zafira hefur það vel af að þræða Kambana upp í móti í hálku og þæfingi. Eftir sem áður finnur maður að hann er ekki til stórræðanna með þessa vél. Hún er fín fyrir bíl af þessari stærð í venjulegt snatt og ferðalög að sumri til. Eitt er það sem kom verulega á óvart og það er hversu stöðugur bíllinn er á veginum í afleitu veðri. Þrátt fyrir stærðina tekur hann ekki á sig mikinn vind þannig og kemur þar hönnunin örugglega við sögu. Veghljóð er ekki mjög mikið þó að eflaust mætti einangra betur. Tveggja lítra dísilvélin mallar nokkuð hátt og minnir eilítið á dráttarvél sem getur verið notalegt á köflum. Eyðslan var 6,8 l á hverja 100 kílómetra í blönduðum akstri. Einhver áhrif hefur það haft hversu bálhvasst var og færðin léleg. Má því reikna með að uppgefin eyðsla (frá framleiðanda), sem er um 6 l, geti vel staðist.
Bíllinn sem var prófaður var með glerþaki og fleiru sem telst til aukabúnaðar. Glerþakið er alveg frábært því það birtir mjög til í bílnum við að sjá þarna í gegn auk þess sem bíllinn virðist stærri. Hafi kaupendur ráð á má mæla með glerþakinu en upplýsingar um verð fást hjá umboðinu.
Verðið er frá 5.790.000 kr. og keppir Zafira við aðra 7-manna fólksbíla á borð við Mazda 5, Toyota Prius +, Renault Grand Scenic, Kia Carens, Ford Grand C-Max og Citroën Grand C4 Picasso svo þeir helstu séu nefndir.
Grand C-Max er þeirra ódýrastur og kostar frá 4.050.000 kr. Mazda 5 kostar frá 4.090.000 kr, Grand Scenic frá 4.290.000 kr., Prius + kostar frá 5.860.000 kr., C4 Picasso frá 4.390.000 kr., Carens frá 4.890.777 kr., Zafira frá 5.790.000 kr og Prius + kostar frá 5.860.000 kr. Sá síðastnefndi er eini tvinnbíllinn af þeim sem hér eru nefndir og því ekki alveg rétt að bera hann saman við dísilbílana en hann fær samt að vera með.
malin@mbl.is