Toyota Avensis hefur um árabil verið með vinsælli fólksbílum hér á landi og því víðtæk eftirvænting jafnan ríkjandi eftir nýjum árgerðum þegar fregnir taka að berast af þeim.
Fyrr í sumar var 2015 týpan kynnt blaðamönnum í Sviss, nánar tiltekið á svæðinu í kringum Genfarvatn og þá kom í ljós að breytingin frá Avensis síðasta árs er allnokkur, en þó ekki slík að rétt sé að tala um nýja kynslóð. Útlitið er í það heila fágaðra og hefur til að bera nægilega mikið af nýjungum til þess að freista nýrra kaupenda, án þess að styggja hina fjölmörgu og dyggu unnendur bílsins hingað til. Rétt er að taka fram að skutbíll var prófaður, svo það fari ekki á milli mála.
Eins og gefur að skilja kíkir maður fyrst „framan í bílinn“ þegar fréttist af útlitsbreytingum, til að sjá hvort hann sé fríður að sjá eður ei. Hinn nýi Avensis sver sig vel í ættina og samsetning framljósa og grills er orðin náskyld Auris og Corolla gerðunum, með X-laga mótífinu, án þess að taka það alla leið í það sem Aygo gerir; enda væri það fulldjarft teflt að stefna ráðsettu módeli í svo róttækar áttir. Allar línur hringinn í kring eru orðnar straumlínulagaðri og fágaðri, og á meðan margir munu eflaust fagna þessum ágætlega heppnuðu breytingum má spyrja sig hvort sumum þyki Avensis orðinn óþarflega keimlíkur Auris og félögum? Avensis 2014 hefur til að bera talsvert svipmeira framgrill og meira afgerandi svip í það heila, en niðurstaðan er smekksatriði út af fyrir sig. Bíllinn er afskaplega módernískur að sjá og þegar haft er í huga að hafsjór Toyota-unnenda er nánast í áskrift að nýjum gerðum og það nánast árlega er líkast til um að ræða klókt útspil hjá Toyota – nýtt en ekki byltingarkennt, að minnsta kosti ekki að utan. Samt ber að nefna að afturljósin eru að sama skapi komin nær Auris-gerðinni, á toppinn er komið flott, uggalaga loftnet og bíllinn er búinn LED-dagljósum sem og afturljósum.
Við heldur annan tón kveður þegar sest er inn í bílinn. Fyrir það fyrsta gefur hurðalokunin þétt og ákaflega traustvekjandi hljóð og meðan við erum að tala um hljóð þá er gaumhljóðið sem heyrist þegar stefnuljós er gefið alveg rándýrt. Slíkt má ekki vanmeta því það spilar allt, meðvitað og ómeðvitað, inn í upplifun ökumanns. Innréttingin í Avensis 2015 er ný frá grunni. Sætin eru klædd Alcantara sætisáklæði og eru satt að segja virkilega þægileg. Sama er að segja um Nappa-klætt stýrishjólið sem er framúrskarandi gott, mátuleg svert og fer einkar vel í hendi. Því má bæta við að þegar bíllinn var prófaður upp og niður hlykkjótta fjallvegi í nágrenni við skíðabæinn Verbier fór hann furðu létt með nánast 180° beygjur í talsverðum halla, hélt sér vel á réttum kili og stýring öll skínandi.
Í innréttinguna við mælaborðið er kominn 8" Toyota Touch margmiðlunarskjár í mælaborði með bakkmyndavél auk 4.2" upplýsingaskjás fyrir ökumann. Viðmót snertiskjásins er býsna þægilegt og fljótratað fram og til baka. Þá hefur Toyota splæst í
Satin-króminnfellingar sem gefa innréttingunni afar glæsilegt yfirbragð, þegar haft er í huga í hvaða verðflokki bíllinn er. Fótarými er fyrirtak og í stuttu máli má taka innanrýmið saman svo að frábærlega fari um ökumann og farþega.
Það er best að segja það eins og er að Avensis Station er ekki hugsaður sem bíll sem á að „performera“ á götum úti. Hann er tæpar 12 sekúndur upp í hundraðið, en á móti kemur að hann siglir eins og engill um þjóðveginn þegar komið er í langkeyrsluhraða. Cruise control er stilling sem hæfir honum ágætlega. Sé meiningin að gefa stundum í er rétt að minna á að hann er með CVT-sjálfskiptingu sem gerist talsvert hávær þegar inngjöfin er botnuð. Að sama skapi er veghljóð hreint ótrúlega lítið þegar komið er á sæmilega ferð og vindgnauð vart merkjanlegt.
Það sem stendur upp úr þegar allt er sett upp á strik er að bíllinn er búinn ríkulegum staðalbúnaði, nútímalegur og smart að sjá, og eyðslan er hin fínasta fyrir þennan bíl; CO2 útblásturinn er um leið hinn skaplegasti. Toyota-unnendur verða örugglega ekki fyrir vonbrigðum og laglegt útlitið gæti jafnvel húkkað inn nýja Toyota-eigendur. Að lokum má hnykkja á því sem margir skoða þegar kemur að því að velja sér station-bíl til kaups, að farangursrýmið í skottinu er fyrirtak. Það er 543 lítrar með aftursætin upp og heilir 1609 þegar sætin hafa verið felld niður með þægilegri eins hnapps aðgerð.
jonagnar@mbl.is