Engar málamiðlanir hér

Það leynir sér ekki að hér er nýr bíll á …
Það leynir sér ekki að hér er nýr bíll á ferðinni, og það einkar veglegur. Engu að síður ómar bergmál liðinna áratuga og ekki að undra Range Rover frá Land Rover hefur verið í fremstu röð lúxusjeppa allt frá því fyrstu bílarnir komu á markaðinn fyrir 46 árum síðan. Núverandi kynslóð er einungis sú fjórða, enda gerast góðir hlutir hægt, eins og þar stendur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Undirritaður man ennþá mætavel daginn þegar hann sá fyrst Range Rover og dáðist rækilega að. Það var daginn sem ég fór í bíó að sjá íslensku barna-spennumyndina Veiðiferðina á því herrans ári 1980.

Þessi myndarlegi jeppi vakti strax athygli mína enda voru „Reinsarar“ ekki ýkja algengir á götum borgarinnar í þá daga; mest bar á Ford Bronco, Scout, bræðrunum Cherokee og Wagoneer frá AMC og svo sást einstaka rússajeppi, eins og þeir voru kallaðir, á götunum.

Ættarsvipur gegnum áratugina

Á þessum 36 árum sem síðan eru liðin hefur flest tekið algerum stakkaskiptum í heimi bílanna, nema hvað Range Rover er ennþá á ákveðnum stalli þegar kemur að lúxusjeppum. Hann þótti nokkuð dýr og þykir enn, og þó útlitið sé í flestu frábrugðið því sem einkenndi þennan frumherja í deild lúxusjeppa þá hefur útlit hans í raun þróast í gegnum áratugina. Eitt og annað má enn sjá í svip Range Rover sem sást þá þegar einn slíkur var skoðaður, því bíllinn gengur lengi á hverri grunngerð og styðst við minniháttar andlitslyftingar þess á milli. Það segir sína sögu í þessu sambandi að fyrsta kynslóðin kom fram árið 1970 og núverandi, sem er sú fjórða, kom á markaðinn 2012, 42 árum seinna.

Range Rover hefur alla tíð haft tilkomumikla nærværu. Af honum stafar forréttindablær og það fer ekki á milli mála að hér er farartæki á ferð sem ekki er allra að eignast. Enda var það svo að kynslóðin á undan, sem kom fram á sjónarsviðið árið 2002, var ein helsta táknmynd ársins 2007 hér á landi. Með hverri kynslóð sem kemur fram eru þessi útlitseinkenni undirstrikuð og það hefur ekki brugðist í þeirri nýjustu. Jeppinn er bókstaflega rándýr að sjá en burtséð frá því er útlitsuppfærslan hörkuvel heppnuð að þessu sinni; jeppinn er straumlínulagaðri og línur allar heldur mýkri þó ættarsvipurinn leyni sér ekki. Hliðarsvipurinn minnir ennfremur á forverana og helsta einkennið milli kynslóða er á sínum stað en það eru vitaskuld tálknin milli framhjólaskálanna og framhurðanna. Framendinn er engu að síður nokkuð breyttur milli kynslóða, til hins betra, og sama er að segja um baksvipinn og afturljósin. Bíllinn er í einu orði sagt dúndurflottur.

Innréttingar og aðbúnaður

Eins og við er að búast er talsverð upplifun að setjast undir stýri á nýjum Range Rover. Efnisvalið í sætum, innréttingu og mælaborði er hreint út sagt frábært, og búnaður allur eins og við er að búast í sönnum lúxusjeppa – og rúmlega það. Sætin má stilla og fínstilla út í hið óendanlega og kröfuhörðustu afturendar finna hér stillingu við sitt hæfi og renna í kjölfarið sáttir af stað. Þá eru hljómtækin – sem eru frá Meridian – með því allra besta sem undirritaður hefur reynt um borð í bifreið fyrr og síðar. Hljómurinn er hreint ótrúlegur, sama hvaða tegund tónlistar er botnuð.

Framúrskarandi akstursbíll

Og þá er komið að máli málanna. Hvernig er raunverulega að keyra þennan bíl? Hann er stór, svo mikið fer ekki á milli mála, og vigtar um tvö og hálft tonn. Hvað þýðir það þegar kemur að sjálfum aksturseiginleikunum, svosem tog, fjöðrun, stýring og svo framvegis?

Satt að segja þýðir það bara allt ágætt, og rúmlega það. V8 díselbíllinn sem prófaður var býr yfir 339 hestöflum sem skila heilum 740 Nm í togi til hjólanna og þessi hlemmstóri bíll er sprettharðari en mann gæti grunað við fyrstu sýn. Auk þess að vélarhljóðið svo þykkt og þétt að ökumann langar helst að mala í takt af ánægju. Fjöðrunin er óaðfinnanleg og heldur bílnum einkar stöðugum, jafnvel þó farið sé í hringtorg á talsverðum hraða. Ekki var bíllinn tekinn til kostanna utan vega en miðað við fjöðrunarstillingar er gert ráð fyrir því að eigandi bílsins reyni hann utan vega.

Stýringin er létt en þó með þægilegu viðnámi og beygjuradíusinn er furðanlega knappur fyrir svo stóran bíl. Á malarvegi sem taldi um eina og hálfa breidd hefðbundinnar akreinar fann greinarhöfundur svolítið útskot og með því að beygja þar inn var hægt að taka u-beygju án vandkvæða. Allt í allt er Range Rover skínandi dæmi um bíl sem fær ökumann til að velja alltaf lengri leiðina heim.

Konungur jeppanna eða lúxusbíll?

Það er spurning hvernig er réttast að skilgreina Range Rover; er þetta fjórhjóladrifinn lúxusbíll eða jeppi í munaðarútfærslu? Það má deila um það út af fyrir sig en hitt verður ekki deilt um að þessi jeppi/bíll er í talsverðum sérflokki þegar kemur að lúxusnum. Hann er vitaskuld ekki á allra færi hvað verðmiðann varðar en hafi maður peninginn handbærann er erfitt að finna verðugan keppinaut. Það mætti nefna Land Cruiser 200 vilji menn stærðina og mikilfengleikann; Porsche Cayenne eða Audi Q7 hafa lipurðina og kraftinn í akstri og ekki má gleyma Volvo XC90 í þessu sambandi heldur. En Range Rover sameinar þetta allt í jeppa sem fátt toppar.

Nema kannski næsta kynslóð af Range Rover.

Það væsir ekki um neinn sem ferðast um í Range …
Það væsir ekki um neinn sem ferðast um í Range Rover Vogue, hvorki ökumann ná farþega. Innarýmið er fyrsta flokks hvert sem litið er og ekki spillir glerþakið. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Efnisvalið í innréttingu og mælaborði er eins og best gerist …
Efnisvalið í innréttingu og mælaborði er eins og best gerist í Range Rover, um leið og hönnunin er í alla staði sérlega smekkleg og fáguð. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Farangursrýmið tekur lengi við enda rúmar það heila 909 lítra.
Farangursrýmið tekur lengi við enda rúmar það heila 909 lítra. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Það leynir sér ekki að hér er nýr bíll á …
Það leynir sér ekki að hér er nýr bíll á ferðinni, og það einkar veglegur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Range Rover frá Land Rover hefur verið í fremstu röð …
Range Rover frá Land Rover hefur verið í fremstu röð lúxusjeppa allt frá því fyrstu bílarnir komu á markaðinn fyrir 46 árum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Núverandi kynslóð Range Rover er einungis sú fjórða, enda gerast …
Núverandi kynslóð Range Rover er einungis sú fjórða, enda gerast góðir hlutir hægt, eins og þar stendur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Vel fer um menn í framsætum í Range Rovernum nýja.
Vel fer um menn í framsætum í Range Rovernum nýja. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Vel fer um farþega í aftursætum í hinum nýja Range …
Vel fer um farþega í aftursætum í hinum nýja Range Rover. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: