Leiftrandi litbrigði

„Í EV stillingunni notar hann eingöngu rafmótorinn til að knýja …
„Í EV stillingunni notar hann eingöngu rafmótorinn til að knýja bílinn, Econ stillingin gerir CR-V skilvirkari og lætur hann spara orku, og á Sport stillingu verður hann snarpari.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég var mættur einni klukkustund innan tilsetts tíma niður í Bernhard í Vatnagörðum til að fá lánaðan nýjan Honda CR-V Hybrid, en það eitt sýnir vel hve spenntur ég var fyrir því að fá að prófa bílinn. Sjálfur hef ég átt Honda CR-V um árabil, og líkað það vel.

Sölumenn Bernhard höfðu sagt mér fyrirfram að ég gæti því miður ekki fengið bílinn fyrr en umboðið lokaði klukkan fjögur á laugardegi, slíkur væri áhugi almennings á því að fá að reynsluaka honum. Sá áhugi kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Honda er einn söluhæsti sportjeppi heims, hefur verið í framleiðslu síðan árið 1995 og nýjasta gerðin tilheyrir fimmtu kynslóð. CR-V er þekktur fyrir að vera praktískur og rúmgóður, hentugur í ferðalögin, og svo virðist vera hægt að keyra hann nánast endalaust, um það get ég vitnað.

Þrjár útgáfur

Eftir að ég var búinn að þiggja kaffibolla, rýna í bæklinga og ræða stuttlega við sölumenn, buðu þeir mér, meðan ég biði eftir Hybrid jepplingnum, að reynsluaka bensínútgáfunni af bílnum. Ég þáði það með þökkum. Nýi CR-V fæst í þremur útfærslum. Sá ódýrasti er Elegance, þá kemur Lifestyle og loks Executive, sem var einmitt sá sem ég fékk að prófa bensínknúinn. Executive útgáfan inniheldur allt það besta sem hægt er að bjóða upp á eins og þaklúgu, álfelgur og handfrjálsan aðgang að farangursrými, svo eitthvað sé nefnt, en einnig gegnsæjan skjá í sjónlínu sem rís upp úr innréttingunni þegar ýtt er á takka.

Eftir ágætan hring á svörtum Executive bílnum, og ljúfa akstursreynslu, var kominn tími til að fá að setjast upp í Hybrid bílinn. Sú útgáfa sem ég fékk í hendur var miðútgáfan, Lifestyle. Þægileg sæti með fallegu ljósu leðuráklæði einkenna innra byrðið, en skyggt gler, lyklaust aðgengi og ræsing, og afísing undir þurrkum er meðal góðra eiginleika. Þá er bílinn með tvöfalda virka hljóðdempun (e. Noise Control) sem snarminnkar öll umhverfis og veghljóð. Ég er enginn sérstakur aðdáandi viðarútlits í bílainnréttingum, eins og er að finna í CR-V Hybrid, en viðurkenni þó að það gefur ákveðinn hlýleika.

Hybrid Lifestyle kostar 6.590.000 kr. sjálfskiptur en til samanburðar kostar bensínútgáfan 6.290.000 kr. Vélin, i-MMD Hybrid AWD, með batteríinu og rafmótornum skilar eyðslu upp á 5,5 lítra á hundraðið í blönduðum akstri, samkvæmt því sem gefið er upp í verðskrá, og ætti til lengri tíma að geta vegið upp á móti hærra verði. Í reynsluakstrinum innanbæjar fylgdist ég grannt með eyðslunni af upplýsingaskjánum í mælaborðinu, og var hún oftast á bilinu 7-8 lítrar á hundraðið.

Vélin í tvinn-CR-V er 184 hestöfl, sem er meira afl en gefið er upp fyrir bensínútgáfuna af Lifestyle, og bíllinn sýndi gott viðbragð og snerpu, og fór átakalítið upp á annað hundraðið.

Upplýsingaskjárinn í mælaborðinu býður upp á margskonar fróðleik sem auðvelt er að fletta í gegnum með því að þrýsta á hnapp á stýrinu, en auk þess að geta fylgst með bensíneyðslunni, þá má til dæmis horfa á það í rauntíma hvernig bíllinn notar bensín og rafmagn á víxl, með leiftrandi grænum og bláum litbrigðum.

Engin gírstöng

Það sem er nýstárlegt við bílinn, og ólíkt öllum bílum sem ég hef ekið til þessa, er að þar er engin gírstöng. Honum er algjörlega stjórnað með tökkum á þeim stað í miðjunni þar sem gírstöngin er alla jafna. Þetta er einfalt og nútímalegt viðmót og ég var fljótur að læra á það. Svona ættu allir bílar að vera.

Auk þess sem hægt er að ýta þar á hina vel þekktu D, N, R og P takka, þá er boðið upp á þrjár takka með akstursstillingunum Sport, Econ og EV. Í EV stillingunni notar hann eingöngu rafmótorinn til að knýja bílinn, Econ stillingin gerir CR-V skilvirkari og lætur hann spara orku, og á Sport stillingu verður hann snarpari, skiptir sér hraðar upp og gefur manni skemmtileg aksturshughrif.

Þó ég vilji ekki vera of tæknilegur hér þá vil ég minnast stuttlega á það hve lipurlega bíllinn skiptir á milli þriggja akstursmáta. Í fyrsta lagi er það hreint rafafl. Í öðru lagi hybrid/tvinn, þar sem CR-V notar rafmótorinn til að knýja bílinn en lætur bensínvélina fremst í bílnum hlaða rafmótorinn. Loks er það vélaraflið þar sem tveggja lítra bensínvélin sér um að knýja bílinn beint.

Ég vil að lokum ræða risastórt pláss milli sæta þar sem er hægt að koma fyrir ógrynni af alls konar dóti, sé hilla fjarlægð. Slíkt geymslupláss í bílum er gulls ígildi, sérstaklega á langferðum.

Raddstýring eykur öryggi

Upplýsinga- og skemmtikerfið er í góðri hæð fyrir ökumanninn. Það er ekki það allra nýtískulegasta en gerir sitt gagn. Þar er boðið upp á Apple Car Play og Android Auto símasamstillingar, ásamt Garmin leiðsögukerfi. Ég prófaði innbyggt raddstýringarkerfið nokkrum sinnum, til að stjórna útvarpi og miðstöð. Stundum gekk það vel, og stundum alls ekki. Ég ráðlegg nýjum eigendum að leggja allar skipanir strax á minnið, og þá ætti þetta allt saman að ganga vel. Það skapar öryggi í akstri að geta talað við bílinn í stað þess að þurfa að taka augun af veginum til að ýta á takka hingað og þangað.

Honda CR-V Hybrid

» 2,0 l tvinnvél

» 184 hestöfl / 315 Nm

» e-CVT gírskipting

» 5,5 l / 100 km í blönduðum akstri

» Úr 0-100 km/klst. á 9,2 sek.

» Hámarkshraði 180 km/klst.

» AWD

» Á 18‘{lsquo} álfelgum

» 1.726 kg eigin þyngd

» 497 l farangursrými

» Koltvísýringslosun 126 g/km

» Verð frá 6.190.000 kr.

Umgjörð ökumanns og farþega er prýðileg og skjárinn í góðri …
Umgjörð ökumanns og farþega er prýðileg og skjárinn í góðri hæð. mbl.is/Kristinn Magnússon
Eyðslutölur í reynsluakstri voru nokkru hærri en í bæklingi.
Eyðslutölur í reynsluakstri voru nokkru hærri en í bæklingi. mbl.is/Kristinn Magnússon
Honda CRV tvinnbíllinn.
Honda CRV tvinnbíllinn.
Honda CRV tvinnbíllinn.
Honda CRV tvinnbíllinn.
Honda CRV tvinnbíllinn.
Honda CRV tvinnbíllinn. mbl.is/Kristinn Magnússon
Honda CR-V tvinnbíllinn.
Honda CR-V tvinnbíllinn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina