„Hæfilega wild“

Toyota Camry er söluhæsti bíll heims í D/E stærðarflokki.
Toyota Camry er söluhæsti bíll heims í D/E stærðarflokki.

Króatía. Múrsteinsrauð húsþök, grænblár sjór, Toyota Camry, og ég í minni annarri heimsókn á Balkanskagann. Eftir að hafa lent á Dournier-skrúfuþotu á flugvellinum í Split, og kannað umhverfið í kringum hótelið um kvöldið, var tími kominn til að hvíla sig fyrir „átökin“ daginn eftir þegar ekið yrði á splunkunýjum og glansandi Toyota Camry-bíl frá Split til Sibenik, lítið eitt norðar í landinu.

Leiðin þangað lá mikið upp á móti í fyrstu, en síðan í þónokkrum krókum, sveigjum og beygjum allt á leiðarenda. Þetta var sérlega skemmtileg reynsluakstursleið sem sem gaf bílnum gott tækifæri til að sanna sig. Króatísku vegirnir á þessu svæði eru almennt góðir og miðja vegu á leiðinni til Sibenik var staldrað við í þjóðgarðinum með „þjála nafnið“, Krka, og borðað nesti í boði Toyota.

Fimmtán ára hlé

Fimmtán ár eru síðan Toyota Camry var síðast í boði í Vestur-Evrópu og er kynntur á ný til sögunnar sem arftaki Toyota Avensis. Camry var nokkuð áberandi hér á Íslandi á sínum tíma eins og annars staðar í Evrópu en á þessum fimmtán árum hefur bíllinn notið mikilla vinsælda í Bandaríkjunum og selst þar eins og heitar lummur.

Toyota Camry er nú kominn með 2,5 lítra, 218 hestafla tvinn-vél sem ekki einungis er fremur hljóðlát og umhverfisvæn, með aðeins 98g/km af CO2, heldur er uppgefin eyðsla ekki nema 4,3 lítrar á hundraðið, og það þó að bílinn sé 2,1 tonn að þyngd. Mælirinn gaf að jafnaði upp eyðslu í kringum sex á hundraðið í akstrinum í Króatíu.

Það svíkur engan að standa upp frá stýrinu og tölta hring í kringum Camry og dást að smekklegum ytri útlitslínum bílsins. Hann hefur karakter bæði að aftan og framan. Hönnunin gengur passlega langt, sem þýðir að bíllinn eldist betur fyrir vikið. Fáeinar undatekningar eru þó á sígildu útliti Camry. Þar má nefna felgurnar sem eru bæði fallegar og skrautlegar í senn og minna helst á rósettuglugga í kaþólskri dómkirkju. Svo er það grillið. Það er kapítuli út af fyrir sig og minnir á eggjaskera. Svo notaður sé frasi úr kvikmyndinni Með allt á hreinu þá er bíllinn hæfilega wild en snyrtimennskan ætíð í fyrirrúmi.

Átta litir í boði

Í bæklingi frá Toyota segir að Camry komi í átta litum. Ég, og meðreiðarsveinn minn í Króatíu, fengum að prófa dökkbrúnan bíl fyrri daginn en seinni daginn, þegar ekinn var strandvegur á leið til baka á flugvöllinn, fengum við til umráða ögn betur búinn hvítan bíl.

Umferð um þessa ágætu en kræklóttu króatísku vegi var sem betur fer með minnsta móti þá tvo daga sem ekið var sem gaf gott tilefni til djarflegra tilburða á köflum þannig að hvein í dekkjum og brakaði í bremsum. Þyngdarpunktur bílsins er lágur og hefur verið lækkaður frá fyrri útgáfum. Það var því nær sama hvernig farið var í beygjurnar, bíllinn loddi eins og tyggjóklessa við malbikið og gaf gott viðbragð þegar út úr þeim var komið.

Toyota Camry er seldur í 100 löndum og litlar 19 milljónir eintaka hafa selst frá því framleiðsla hófst upphaflega árið 1982. 700 þúsund stykki seljast á hverju ári, og mögulega á sú tala nú eftir að hækka til muna, þegar Vestur-Evrópubúar fá loksins aftur tækifæri til að festa kaup á ökutækinu. Í upplýsingapakka Toyota kom einnig fram að Camry er hvorki meira né minna en söluhæsti bíll heims í D/E stærðarflokki.

Á meðan ferðafélaginn ók gafst gott tækifæri til að virða fyrir sér innra byrði bílsins. Gott pláss er bæði milli sæta og í hurð fyrir hálfs lítra vatnsflösku, og innst í miðjunni, var hægt að skutla farsímanum í þráðlausa hleðslu, hefði maður innbyggðan þar til gerðan Qi búnað, sem við vorum auðvitað hvorugur með.

Enginn skortur er á upplýsingastreymi í bílnum þar sem þrjú snjallviðmót, sem öll tengjast hvert öðru með einhverjum hætti, halda manni með á nótunum. Tónlistin streymdi úr níu JBL-hátölurum og innréttingin var smekkleg að heildarútliti með munúðarfullum viðarlituðum bogalínum.

Bið eftir tengiltvinn

Á blaðamannafundi spurðu bílablaðamennirnir hvar bíllinn væri smíðaður og hvort von væri á tengiltvinn-útgáfu. Svarið var einfalt. Bíllinn er smíðaður í Japan og ekki er von á tengiltvinn-vél í bráð. Þá vildu menn vita hvort að von væri á skutbíl. Svarið var hið sama, slíkur bíll er ekki á leiðinni.

Camry er fekar stór og rúmgóður bíll, og því nóg pláss aftur í fyrir meðal manninn. Pláss í skotti er sömuleiðis dágott.

Það var gaman að keyra Camry í Króatíu. Camry er kannski ekki sportbíll en af tilhlökkuninni að dæma, þegar maður lagðist á koddann að kvöldi eftir að hafa ekið allan liðlangan daginn, þá er þetta bíll sem ekki bara er praktískur, heldur gerir þónokkuð fyrir skynfærin.

Nýr Toyota Camry

» 2,5 lítra tvinnvél

» 218 hestöfl/202 NM

» 0-100 km/klst.: 8,3 sek.

» Hámarkshraði 180 km/klst.

» Farangursrými: 500 l

» Mengunargildi 98 g/km

» 4,3 l/100 km í blönduðum akstri

» Eigin þyngd: 2.100 kg.

» Verð frá: 6.550.000 kr.

» Umboð: Toyota

Innréttingin er smekkleg að heildarútliti með munúðarfullum viðarlituðum bogalínum, og …
Innréttingin er smekkleg að heildarútliti með munúðarfullum viðarlituðum bogalínum, og samstilltu upplýsingakerfi.
Grillið er kapítuli út af fyrir sig og minnti blaðamann …
Grillið er kapítuli út af fyrir sig og minnti blaðamann helst á eggjaskera.
Skottið er vel viðunandi að stærð og stækkar enn ef …
Skottið er vel viðunandi að stærð og stækkar enn ef sæti eru lögð niður.
Bíllinn er rúmgóður og þægilegur fyrir aftursætisfarþegana.
Bíllinn er rúmgóður og þægilegur fyrir aftursætisfarþegana.
2,5 lítra, 218 hestafla tvinn-vél knýr bílinn áfram.
2,5 lítra, 218 hestafla tvinn-vél knýr bílinn áfram.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina