Óðurinn til gleðinnar

Það rann þá uppfyrir mér að ég hafði ekki fengið …
Það rann þá uppfyrir mér að ég hafði ekki fengið bíl að láni, heldur Valkyrju: óstöðvandi, tignarlega, geislandi af djörfung, krafti og gleði mbl.is/Ásgeir Ingvarsson

Spilaðu Beethoven,“ bað ég bílinn, og hann birti á framrúðuskjánum nokkrar sinfóníur beint af USB-lyklinum mínum. „Fimmta? Nei. Sjöunda? Neibb. Aha!: Númer níu, fjórði þáttur.“

Landslagið þaut framhjá, eins og það gerir bara á þýskum hraðbrautum. Steinsnar frá Stuttgart á 200 kílómetra hraða, í ríflega 2,500 kg þungum og tæplega 5,8 metra löngum Rolls-Royce. Rösklega 560 hestafla vélin nærri hljóðlaus, enda hvert þil og skilrúm fóðrað með þykkri einangrun. Myndi kosta vel yfir 100 milljónir kominn á götuna í Reykjavík.

Sinfónían liðaðist áfram, einsöngvararnir hófu upp raust sína og leyfðu röddunum að fléttast saman:

Wem der große Wurf gelungen

Eines Freundes Freund zu sein;

Ég tiplaði fingri á takka á stýrinu til að hækka ögn í hljómkerfinu, og fann hvernig merkileg tilfinning byrjaði að ólga innst í sálartetrinu.

Freude trinken alle Wesen

An den Brüsten der Natur;

Alle Guten, alle Bösen

Folgen ihrer Rosenspur.

Strengirnir og blásturshljóðfærin tóku líflega syrpu; mögnuðust upp þar til skyndilega að kom nánast þögnin ein, rofin af takti sem líktist hjartslætti.

Vegurinn tæmdist fyrir framan mig. Plánetur sólkerfisins röðuðu sér upp í eina þráðbeina línu með mig sem miðpunktinn. Bensínfóturinn þyngdist. 210, 220, sagði hraðamælirinn

Kórinn fyllti farþegarýmið:

Freude, schöner Götterfunken,

Tochter aus Elysium,

Eitt augnblik var tilveran dásamleg. Allar misgjörðir fyrirgefnar, með einlægri von að aðrir geti fyrirgefið mér það sem ég hef gert á þeirra hlut. Litlu vandamálin urðu að engu, og þau stóru yfirstíganleg.

Wir betreten feuertrunken,

Himmlische, dein Heiligtum!

230 km/klst, áreynslulaust. Bílarnir í kring virtust nánast kyrrstæðir.

Ég varð að hægja ferðina, því gleðitárin ollu því að ég sá ekki nógu vel fram á veginn.

Hvílik og önnur eins bifreið! Hverrar einustu krónu virði.

Konungur götunnar

Kannski þykir lesendum þetta tilgerðarlegur inngangur á reynsluakstursgrein, en það er hreinlega engu líkt að aka Rolls-Royce. Á þýskri hraðbraut. Með Beethoven á hæsta styrk.

Þau í Goodwood voru svo almennileg að lána mér sjálft djásnið í flotanum, nýju Phantom-lúxuskerruna sem fyrst kom fyrir sjónir almennings sumarið 2017. Fjórir dagar og þrjár nætur. Sækja og skila rétt sunnan við München. Úr varð að fara fyrst upp að Neuschwanstein-kastala, svo áfram vestur til Strasbourg, suður til Colmar, og loks aftur í einum rykk á upphafsreit. Hvílíkt forréttindalíf sem það getur stundum verið, að skrifa um bíla.

Að fjalla um Rolls-Royce er samt hægara sagt en gert, því hvað má nota til viðmiðunar? Hvar á að byrja? Á kannski að hefja frásögnina með regnhlífunum sem eru felldar inn í hurðirnar svo þær séu alltaf til taks? Ef það er ekki nógu yfirdrifið, hvað þá með ljósaskrúðið innan á lofti farþegarýmisins? Kaupandinn getur látið smiði Rolls-Royce raða ljósunum eins og honum hugnast, og margir sem velja að herma eftir stjörnuhimninum á einhverjum merkisdegi. Gleymum síðan ekki mælaborðinu sem Phantom kallar reyndar „gallerí“, og lætur spanna alla breidd farþegarýmisins. Þar getur kaupandinn látið koma fyrir sérsmíðuðu listaverki eftir sinn uppáhalds handverks- eða listamann til að hafa fyrir augunum í hvert skipti sem bíllinn er notaður. Galleríið er loftþétt og sett saman í dauðhreinsuðu herbergi svo að ekki sjáist ein arða af ryki á listaverkinu.

Fyllir ökumann sjálfstrausti

En svo er það sem ekki sést á myndum, eins og hvernig Phantom er í akstri. Hann er mikill á velli, en samt einhvern veginn nettur og lipur á veginum og unaður að aka. Samt er Phantom gerður fyrir kaupendur sem sitja meira í aftursætinu, og láta einkabílstjórann sjá um aksturinn og fyrir vikið er bremsupedallinn þannig stilltur að langt bil er á milli hæstu og lægstu stöðu – til þess gert að bílstjórinn geti hemlað mýkra og nákvæmar svo að farþeginn finni varla fyrir því þegar bíllinn hægir ferðina.

Síðan hefur Phantom þessi skrítnu sálrænu áhrif í akstri. Ég verð oft ögn stressaður í umferðinni í erlendum borgum, þar sem göturnar eru þröngar, umhverfið ekki kunnuglegt, auðvelt að gera mistök og fá háa sekt í pósti nokkrum vikum síðar. Á Phantom fann ég þessa streitu líða úr mér, því á svona drossíu liggur manni ekkert á, fer á þeim hraða sem manni hentar frekar en að eltast við öran takt borgarumferðarinnar. Asinn er enginn og aðrir víkja úr vegi. Svo beygja afturhjólin lítillega með framhjólunum, sem gerir Phantom liprari en stærðin myndi láta mann halda.

Að því sögðu þá má, með herkjum, alltaf finna eitthvað sem mætti bæta lítilsháttar og þá helst aðeins með samanburði við Bentley Mulsanne EWB sem er eini bíllinn sem með réttu má setja í sama flokk og Phantom. Vill svo heppilega til að ég reynsluók Mulsanne-limósínunni árið 2017. Fyrst má nefna að aftursætin voru greinilega mýkri og þægilegri í Mulsanninum. Þá hefði verið betra að hafa gluggatjöld fyrir afturgluggunum á lánsbílnum, en þau fást vitaskuld sem aukabúnaður. Skjáirnir sem eru innbyggðir í bakið á framsætunum eru fastir við sætin, en ekki losanlegir eins og hjá Bentley, og ekki að sjá að þráðlaus heyrnartól séu í boði fyrir aftursætisfarþegana. Drykkjakælirinn á milli aftursætanna er líka ögn smærri en á Mulsanninum, svo að varla er að sjá að megi koma fyrir fleiri en einni kampavínsflösku. Haldið þið að það sé?

Þeysireið Valkyrjunnar

Sem farþegi myndi ég því liklega velja Bentleyinn, en sem ökumaður veit ég ekki um nokkurn betri stað en á bak við stýrið á Rolls-Royce Phantom. Er helst hægt að líkja upplifuninni við að aka stærstu gerðinni af Range Rover, enda Phantom hér um bil jafnhár og jeppi og ökumaður með útsýni í allar áttir, en Phantom liggur samt límdur við veginn, bifast ekki sama hversu hratt er ekið, og var eins og lest á teinum þó farið væri vel yfir 200 km/klst í skúraveðri á hraðbrautunum.

Ökumaður og farþegar eru eins og blóm í eggi, umvafðir þægindum, svífa yfir allar misfellur í veginum, og helst að megi heyra smá gnauð vindinum þegar slökkt er á afþreyingarkerfinu og ekið nærri 200 km markinu, enda kassalaga formið ekki beinlínis hannað til að smjúga í gegnum loftið. Hvar sem maður stoppar er eftir bílnum tekið, fólk stelst til að taka myndir og stilla sér upp. Er helst að það geti orðið flókið að finna bílastæði – Phantom skagar um það bil meter út úr venjulegu stæði. Svo tekur líka á að stoppa á bensínstöð: gleðitárin viku fyrir harmatárum og trega við það að sjá bensíntankinn svolgra í sig öll ritlaunin. Tólf strokka gleðigjafinn undir húddinu er ekki sparneytinn.

En það fyrirgefst, og er eyðslan engin fyrirstaða ef maður hefur efni á svona bíl á annað borð.

Á leiðinni frá Neuschwanstein spilaði ég smá Wagner, eins og kastalabúinn Ludwig II hefði viljað. Það rann þá upp fyrir mér að ég hafði ekki fengið bíl að láni, heldur Valkyrju: – óstöðvandi, tignarlega, geislandi af djörfung, krafti og gleði. Hún heitir Brúnhildur og er yndisleg.

Hojotoho! Hojotoho!

220 km/klst í hellidembu, eins og ekkert sé. Vík úr vegi mínum því hérna kem ég!

Heiaha! Heiahaha!

Rolls-Royce Phantom 8. kynslóð

» 6,75 l V12 bensínvél m. tvöf. forþjöppu.

» 563 hö / 900 Nm.

» 8 gíra ZF 8HP sjálfskipting.

» 15,7 l/100km í blönduðum akstri (WLTP).

» 0-100 km/klst á 5,3 sek.

» Hámarkshr. 250 km/klst.

» Afturhjóladrifinn m. beygjubúnaði á afturhjólum.

» 22‘{lsquo} dekk, með aukalagi af hljóðeinangrandi kvoðu.

» Eigin þyngd 2.560 kg.

» Farangursrými 548 l.

» Sótspor: 356 g/km (WLTP).

» Grunnverð: 53.000.000 kr f. skatta og gjöld, 60.897.000 kr eins og prófaður, f. skatt.

Eitt af sérkennum Rolls-Royce er hvernig hurðirnar opnast út. Ekki …
Eitt af sérkennum Rolls-Royce er hvernig hurðirnar opnast út. Ekki skortir fótaplássið.
Einbeittur blaðamaður á góðum stað. Takið eftir stjörnuþekjunni innan á …
Einbeittur blaðamaður á góðum stað. Takið eftir stjörnuþekjunni innan á þakinu.
Þó Phantom sé hannaður fyrir eigandann í aftursætinu er hann …
Þó Phantom sé hannaður fyrir eigandann í aftursætinu er hann bráðgóður ökumannsbíl.
Af hverju eru ekki allir bílar með regnhlíf innbyggða í …
Af hverju eru ekki allir bílar með regnhlíf innbyggða í afturhurðirnar? Alveg ómissandi.
Regnhlífin er alltaf til taks og kemur í góðar þarfir, …
Regnhlífin er alltaf til taks og kemur í góðar þarfir, t.d. á rauða dreglinum.
„Galleríinu“ er ætlað að hýsa listaverk, sérpöntuð af eiganda bílsins.
„Galleríinu“ er ætlað að hýsa listaverk, sérpöntuð af eiganda bílsins.
Það er hughreystandi að horfa úr ökumannssætinu fram á veginn …
Það er hughreystandi að horfa úr ökumannssætinu fram á veginn og sjá þar smástyttuna á húddinu. Spirit of Ecstacy - Andi alsælunnar
Leysigeislar lýsa langt, langt fram á veginn.
Leysigeislar lýsa langt, langt fram á veginn.
Skottið er svo rúmgott að þar mætti nærri þvi innrétta …
Skottið er svo rúmgott að þar mætti nærri þvi innrétta íbúð. Keepall 45 til samanburðar.
Leiðinni var m.a. heitið að Neuschwanstein-kastala, með Wagner í botni.
Leiðinni var m.a. heitið að Neuschwanstein-kastala, með Wagner í botni.
Það er aðeins fyrir sterkefnaða að slökkva þorsta V12 vélarinnar. …
Það er aðeins fyrir sterkefnaða að slökkva þorsta V12 vélarinnar. Hún sparar ekki kraftinn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Loka