Lúxuskerra í gervi torfærujeppa

Sá hvíti, á 33 tommum, var fágaðari í útliti og …
Sá hvíti, á 33 tommum, var fágaðari í útliti og ekki eins trukkalegur og sá svarti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað meira gætirðu þurft í bíl?“ segir Siggi félagi minn á meðan við virðum fyrir okkur hnappana, innréttinguna og skjáina í Jeep Grand Cherokee Overland-inum sem ég er með til reynsluaksturs.

Á meðan við spáum í spilin, berum bílinn saman við hugsanlega keppinauta annarra bílaframleiðenda, sest Gísli, annar félagi minn, aftur í og hallar sætinu vel aftur, enda bakveikur. „Það er mjög rúmgott hérna aftur í. Hann stenst próf bakveikra. Þú getur skrifað það í þessa grein þína!“ segir hann og bætir eftir stutta umhugsun við: „Það er svona bíll sem maður á að vera á á Íslandi. Alvöru lúxus en ræður líka leikandi við allt sem þig gæti langað að gera.“

Ekki er þó um að ræða hina hefðbundnu útgáfu af Grand Cherokee Overland heldur hefur þessum jeppa verið breytt og komið á 33 tommu dekk. Gefur það vitanlega „jeppalegra“ útlit og býður upp á fleiri möguleika, sem aftur margfaldast þegar komið er á 35 tommu Grand Cheeroke-inn sem ég fékk einnig að reyna.

Allt sem trukkur þarf að hafa

Það verður ekki tekið af mínum mönnum í Ísbandi, umboðsaðila Jeep, að einstaklega vel hefur verið staðið að breytingu bílanna tveggja sem ég hafði til aksturs nú í september. Er breytingin á 33 tommu bílnum unnin af þjónustuverkstæði þeirra en um 35 tommu breytinguna sér Arctic Trucks.

Við 33 tommu breytinguna eru 2 sentimetra upphækkunarklossar settir undir bílinn að framan og 1,5 sentimetra að aftan. Þá eru 33 tommu dekk sett á felgurnar sem fylgja bílnum, jafnvægisstöngum breytt og stilliörmum fyrir loftpúðafjöðrunina breytt í samræmi við upphækkun. Við 35 tommu breytingu eru klossar settir undir loftpúða og dempara og bætt við nýjum örmum í hæðarskynjara. 3 sentimetra hækkun á fjöðrun og 35 tommu dekk á 17x9 tommu felgum eru sett undir.

Grand Cheeroke kemur frá framleiðanda í þremur útgáfum, Laredo sem er standard-týpan, svo kemur Trailhawk og loks er flottasta týpan Overland.

35 tommu Trailhawkinn sem ég fékk að reyna hafði allt sem alvöru trukkur þarf að hafa, og meira. Það kom bersýnilega í ljós þegar ég renndi inn á grófan sveitaveg, fékk að finna fyrir mætti fjöðrunarinnar og göslaðist yfir litlar ár.

Það fyrsta sem ég athugaði var hvernig Quadra-Lift loftpúðafjöðrunin virkaði en með henni má hækka bílinn um allt að sjö sentimetra með einum hnappi. Er þar með búið að auka möguleika bílsins til muna, og áttar maður sig strax á því að Jeep-menn ætluðu sér ekki að hafa Grand Cheeroke-inn neinn máttvana jeppling. Er þessi möguleiki, sem dæmi, sérstaklega gagnlegur þegar þvera þarf þungar ár, og þó að ég hafi í reynsluakstrinum ekki farið yfir nema nokkrar sprænur og eina eða tvær litlar ár fann ég vel hversu nytsamleg þessi stilling gæti verið ef maður væri á ferð yfir erfiðan slóða á hálendinu.

Þegar bíllinn hefur verið hækkaður svona duglega minnkar fjöðrunin þó eðlilega mikið, og myndi maður því ekki endast lengi í þessari stillingu, nema þegar nauðsyn krefði.

Í annars konar aðstæðum koma sér hins vegar vel forstilltar akstursstillingar trukksins. Hægt er að velja á milli stillingar fyrir akstur í eðju, snjó, á sandi eða grjóti. Reyndi ég sem dæmi „rock“-stillinguna á torfæruakstrinum, skipti þá bíllinn yfir í lága drifið og stillti hæðina, og virkaði stillingin ágætlega. Þótti mér þó einnig vænlegur kostur að geta séð um stillingarnar sjálfur, þ.e. að skipta úr háa og lága drifinu eins og mér sýndist og sömuleiðis geta stillt hæðina með því að ýta á einn takka.

Það vakti þó ánægju mína að þurfa ekki að fikta endalaust í stillingunum meðan á torfæruakstrinum stóð, enda var Trailhawkinn á tiltölulega grófum dekkjum og fjöðrunin virkaði vel í þessum aðstæðum þó hún væri einfaldlega á sjálfgefinni stillingu. Ef ég hefði verið á langferð hefði ég þó leyft mér að hleypa aðeins úr dekkjunum, sem voru vel pumpuð eftir aksturinn á malbikinu í miðborginni, og fann maður örlítið fyrir því. Er þar þó ekki við Jeep-menn að sakast því annað var með besta móti og kom trukkurinn vel út úr torfæruprófinu sem ég lagði fyrir hann.

Ekkert leyndarmál

Þrátt fyrir að breytingin á bílunum tveimur hafi komið vel út er það ekkert leyndarmál að maður er að aka Grand Cherokee, og hann stendur fyrir lúxus. Öfugt við það sem maður kannski hefði haldið, að jeppinn myndi mögulega missa einhvern lúxusfíling þegar búið væri að breyta honum, þá var það í raun öfugt: Hinn upphækkaði trukkur náði aldrei að fela það að inn við beinið væri hann lúxuskerra.

Þetta upplifði ég sérstaklega sterkt þegar ég spændi um bæinn á dýrustu týpu Grand Cherokee-sins, ofannefnds Overland. Overlandinn hefur m.a. fram yfir Trailhawkinn leðurinnréttingu (Trailhawk er með leður að hluta), „panoramaopnanlegt glerþak, öflugri hljómflutningsgræjur og ýmsan öryggisbúnað.

Þó að áðurnefndur lúxusfílingur hafi einnig verið ráðandi í hinum 35 tommu Trailhawk var hann alltumlykjandi í hinum minna breytta 33 tommu Overland. Að aka á Overlandinum á malbikinu í Reykjavík, fyrir mann sem er vanur akstri jeppa eða smábíla, var líkt og að þeysa um á týpískum sportbíl. Kraftmikill og öflugur, snar í snúningum og mjúkur þrátt fyrir að pinninn væri kitlaður örlítið. Þótti mér einnig gaman að upplifa hversu lítið maður þurfti að gefa inn til að spæna fram úr öðrum bílum í Ártúnsbrekkunni, í ljósi þess að maður var að aka breyttum díseljeppa en ekki ítölskum sportbíl. Var ég þá ekki einu sinni búinn að setja bílinn í sport-stillingu, sem jók að sjálfsögðu við þessa sömu tilfinningu.

Í morgunumferðinni gat ég gefið öðrum hlutum en taumlausum hraðakstri gaum. Látlaus en fáguð innréttingin heillaði mig mjög, straumlínulagað mælaborðið og sætin þægileg.

Panorama-lúgan var einnig notuð óspart, þrátt fyrir að komið væri inn í september, og allt stjórnkerfi fyrir útvarp, bluetooth-tengingar, íslenskt leiðsögukerfið og annað sem nálgast má í 8,4 tommu aðgerðaskjánum var með besta móti.

Vitanlega er Overlandinn búinn fleiri lúxuseiginleikum, og var það í raun í kjölfarið á því að Siggi félagi minn fékk staðfest að það væri bæði hiti og kæling í sætum að hann spurði svo eftirminnilega hvað meira maður gæti þurft í bíl, eins og að ofan er nefnt.

Ekki kárnaði gamanið þegar hann uppgötvaði að hiti í stýri, blindhornsviðvörun og rafdrifinn afturhleri voru einnig á meðal þess sem lúxuspakki bílsins samanstóð af.

Gísli hitti naglann á höfuðið

Þegar öllu er á botninn hvolft er Grand Cherokee lúxusbíll. Það var því ánægjulegt að reyna á eigin skinni hvernig unnt væri að auka við möguleika þessa þekkta bíl þæginda og fágunar með því að breyta honum og hækka hann upp, og sjá hvernig hann fór leikandi létt með hvert prófið á fætur öðru sem lagt var fyrir hann af þessu tilefni. Líklega hitti Gísli bakveiki naglann á höfuðið með sínu mati; það er svona bíll sem maður á að vera á á Íslandi.

Jeep Grand Cheeroke Trailhawk & Overland

» Þriggja lítra díselvél

» Hestöfl: 250

» Átta þrepa sjálfskipting

» Fjórhjóladrifinn

» Eyðsla í bl. akstri: 7 l/100 km

» Hæð (óbreyttur): 1,79 m

» Lengd: 4,83 m

» Breidd: 1,94 m

» Farangursrými: 782 lítrar

» Koltvísýringslosun: 198 g

» Umboð: Ísband

» Verð frá:

10.990.000 kr. (Trailhawk)

11.740.000 kr. (Overland)

33" breyting: 690.000 kr.

35" breyting: 1.990.000 kr.

Þegar Grand Cherokee er kominn á 35 tommur er hann …
Þegar Grand Cherokee er kominn á 35 tommur er hann ansi reffilegur orðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Risastórt skott gerir ferðalöngum kleift að fara hvert á land …
Risastórt skott gerir ferðalöngum kleift að fara hvert á land sem er. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Inn við beinið er Grand Cherokee sannkölluð lúxuskerra.
Inn við beinið er Grand Cherokee sannkölluð lúxuskerra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Allt stjórnkerfi fyrir útvarp og annað í skjánum var með …
Allt stjórnkerfi fyrir útvarp og annað í skjánum var með besta móti. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Glansandi grillið á þeim hvíta
Glansandi grillið á þeim hvíta mbl.is/Eggert Jóhannesson
Fólk lítur við þegar það mætir þessum á veginum.
Fólk lítur við þegar það mætir þessum á veginum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina