Toyota stígur stórt en nær ósýnilegt skref

RAV4 samsvarar sér vel og afturendi, ljósabúnaður og skott eru …
RAV4 samsvarar sér vel og afturendi, ljósabúnaður og skott eru sportleg eins og annað ytra byrði bílsins.

Ef ekki væri fyrir „bensínlok“ á hvorri hlið bílsins og nokkuð smágerða merkingu aftan við frambrettin er ósennilegt að fólk kveikti á perunni með hversu mikil tímamót nýjasti RAV-4-bíllinn frá Toyota boðar.

Vissulega fylgja nýjum bíl nokkrar útlitsbreytingar, það er þekkt breyta en uppfærsla á framljósum, eilítið öðruvísi grill, brettakantar í háglans og nýjar álfelgur eru ekkert sem gæti undirstrikað réttilega hvað þarna er á ferðinni.

Toyota var farið að huga að samspili rafmótora og sprengihreyfils langt á undan öðrum. Þegar fyrirtækið setti Prius á markað árið 1997 og kynnti tvinn-tæknina fyrir mögulegum kaupendum ráku flestir upp stór augu. Bíllinn virkaði á suma eins og smágert geimskip og enn undarlegra þótti mörgum að láta sér detta í hug að bíllinn gæti af sjálfsdáðum hlaðið inn á sig rafmagni sem síðan myndi nýtast til að knýja hann áfram. Hinir vantrúuðu sögðust ekki ætla að láta glepjast af slíkri „eilífðarvél“.

Japanir hnykla vöðvana

En Toyota lét úrtöluraddirnar ekki á sig fá. Frá því bíllinn kom fyrst á markað hafa selst yfir sex milljónir eintaka af honum og í átta ár hefur fyrirtækið einnig boðið upp á hann í tengil-tvinnútfærslu. En þrátt fyrir vinældir Prius hefur bíllinn aldrei orðið sá risi á markaðnum og við á um marga aðra bíla úr sömu smiðju.

Nú bregður hins vegar svo við að Toyota hnyklar vöðvana á heimsmarkaðnum. Það gerir fyrirtækið með RAV4, sem breytti markaðnum á sínum tíma og kom minni sportjeppum á kortið, bílum sem sameina kosti fólksbílsins og jeppans. Brúa bilið þar á milli með óræðum hætti. RAV4 hefur um alllangt skeið verið til í tvinnútfærslu, en bíllinn, sem hefur selst í yfir 10 milljónum eintaka frá upphafi, er nú í fyrsta sinn boðinn með tengiltvinnvél. Skrefið er mikilvægt fyrir Toyota en markaðinn einnig. Bæði vegna slagkraftsins sem býr í hinni smurðu markaðsvél Toyota, tryggs kaupendahóps sem ekki leitar á önnur mið – og þeirrar staðreyndar að hönnuðum og verkfræðingum fyrirtækisins hefur enn einu sinni tekist að smíða bíl sem er einfaldlega „með þetta“.

Nær allt er á yfirborðinu eins

Þegar sest er upp í bílinn kemur ekki nokkur hlutur spánskt fyrir sjónir og sá sem eitt sinn hefur ekið RAV4 gæti lagt af stað án þess að þurfa að hugsa sig um eitt andartak. Og sé bíllinn hlaðinn fer hann af stað, rétt eins og tvinnbíllinn í góðu ástandi, hljóðlátur og mjúkur. En hann getur auðveldlega „þagað“ með þessum hætti næstu 50 kílómetrana eða svo (Toyota segir meira en 65 km en það á við um óvenjulegar aðstæður og fólk sem aldrei gefur almennilega inn).

Og ökumenn geta auðveldlega leikið sér með stillingar bílsins, ekið á hreinu rafmagni meðan 18 kWh rafhlaðan hefur bolmagn til, ekið í blönduðum rafmagns- og bensínakstri (hybrid) eða látið bílinn beinlínis hlaða inn á rafhlöðuna án þess að taka þaðan nokkuð út. Slík stilling mun ekki hafa mikið notagildi hér á landi en nýtist sannarlega í löndum þar sem tilteknir borgarhlutar eru lokaðir öllum nema þeim bílum sem geta ekið á rafmagninu einu saman. Stillingarnar sem nýtast hér heima eru hins vegar skemmtilegar, m.a. þegar bíllinn er stilltur á rafmagn og sport. Þá er hann nokkuð þéttur og kvikur og sver sig þá að einhverju leyti – en að sjálfsögðu ekki öllu – í ætt við rafbílana sem í dag trylla lýðinn hvað mest.

Tvinnar saman hörkukraft

Í hybrid-stillingunni skilar 2,5 lítra Dynamic Force-bílvélin í bland við tvo rafmótora 302 hestöflum eða 99 hestöflum meira en hreina bensínútgáfan af bílnum. Þegar hann er keyrður á þeirri stillingu og mikið liggur við (eins og alltaf á við í prufuakstri fyrir Morgunblaðið) er bíllinn eins og mesti gæðingur, styggð í hverri taug og lætur finna fyrir sér. Sport er hugtak sem á vel við þegar þarna er komið sögu.

Þessi nýjung frá Toyota gerir RAV4 meira spennandi en áður – og var hann þó vinsæll fyrir. Með skrefinu stígur Toyota einnig af hörku inn á rafvæðingarmarkaðinn sem kallar eftir aukinni drægni tengiltvinnbíla og þar mun samkeppnin harðna mjög á komandi misserum. Það er ekki ósennilegt að á nýju ári verði hann í hópi allra mest seldu bíla landsins. Í dag eru það aðeins Outlander og Tesla 3 sem hafa selst meira. Nú er Toyota komið í slaginn.

Toyota RAV4 Plug-in Hybrid

» Sjálfskiptur

» 4x4

» Allt að 65 km drægni

á rafmagni

» 18 kWh rafhlaða

» 306 hestöfl

» 0-100 km/klst. á 6,0 sek.

» 135 km/klst. hámarkshraði (á rafmagni)

» 180 km/klst. hámarkshraði (hybrid)

» 22 g CO2/km

» Allt að 75 km drægi

á hleðslu

» Eigin þyngd 1.930 kg

» 580 l farangursrými

Grunnv: 8.550.000 kr. (GX)

Verð eins og prófaður: 8.950.000 (Style)

Toyota RAV4
Toyota RAV4
Sumir framleiðendur hafa látið varadekkið fjúka til að koma rafhlöðunni …
Sumir framleiðendur hafa látið varadekkið fjúka til að koma rafhlöðunni fyrir. Það á ekki við um RAV4 og gleður marga.
2,5 lítra Dynamic Force-bensínvélin vinnur mjög vel með rafmótorum sem …
2,5 lítra Dynamic Force-bensínvélin vinnur mjög vel með rafmótorum sem skila í heildina ríflega 300 hestöflum út í hjólin.
Innanstokkurinn er klassískur fyrir RAV4. Stjórntæki í snertiskjá eru þó …
Innanstokkurinn er klassískur fyrir RAV4. Stjórntæki í snertiskjá eru þó að mörgu leyti þjálli en verið hefur.
RAV4 kippir sér ekki upp þótt á hann busli í …
RAV4 kippir sér ekki upp þótt á hann busli í lækjarsprænum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: