Rafmagnaður borgarbíll

Fiat 500e Rafbíllinn er glænýr bíll á gömlum grunni; fallegur …
Fiat 500e Rafbíllinn er glænýr bíll á gömlum grunni; fallegur og frísklegur, snarpur og hagkvæmur. Kristinn Magnússon

Fiat 500 (sem aðdáendurnir kalla Cinquecento upp á ítölsku) hefur verið nánast óbreyttur frá því hann kom fyrst á markað 2007 og má heita kyndilberi krúttkynslóðar bílaheimsins. Hann var mjög „retró“ og vísaði eindregið til nafna síns, frummyndar ítalska smábílsins, sem var framleiddur frá 1957-75. Sá nýi var þó ótvírætt bíll nýrrar aldar og það var mikið lagt upp úr hönnun og smáatriðum.

En nú er kominn nýr Fiat 500, 500e nánar tiltekið, hreinræktaður rafbíll. Og hann sver sig í ættina, nánast óbreyttur í útliti, svona við fyrstu sýn. Jú, það má finna ýmsar lágstemmdar útlitsbreytingar, eins og á stuðurum og grilli (sem eru ekki lengur þar) og á ljósunum, sem eru skemmtilega útfærð LED-ljós, eiginlega eins og augu.

Maður skyldi þó aldrei dæma eftir útlitinu einu, því þó að það virðist nánast eins, þá er þetta glænýr bíll, ekki smíðaður í Póllandi, heldur heima í Tórínó í glænýrri verksmiðju Fiat. Það segir sig sjálft að rafmagnsbíll lýtur öðrum lögmálum en bensínbíll. Að því hafa verkfræðingar Fiat þurft að semja sig og þeim hefur tekist að nýta breyttar forsendur til að smíða talsvert betri bíl. Og bara þrælskemmtilegan.

Hönnunin er stílhrein, falleg og hentug; allt innan seilingar.
Hönnunin er stílhrein, falleg og hentug; allt innan seilingar. Kristinn Magnússon

Sportlegur en ekki sportbíll

Fiat framleiðir fjórar gerðir 500e, eilítið misvel búnar og verðið endurspeglar það, en hér á landi býður ÍsBand aðeins tvær þeirra. Blaðamaður fékk til reynslu La Prima, sem er fínasta gerðin, en í þeirri einföldustu, sem nefnist Action, er drægið minna og ekki flatskjár, sem ég held að maður myndi sakna. En verðmunurinn er líka talsverður, svo það er ástæða til þess að hugsa sig um. Action kostar frá 3.999.000 kr., en La Prima frá 4.999.000 kr.

Þetta er sportlegur bíll til að horfa á og aka. En hann er ekki sportbíll og hefur t.d. ekki þetta klikkaða tog, sem margir rafbílar búa yfir. Hann kemst alveg hratt (150 km/klst.) og er 9 sekúndur í hundraðið, en togið þrýstir manni ekki aftur í sætið eða vekur fiðrildi í maga. Eins og vera ber í nettum borgarbíl.

Þetta er afar lipur bíll með frábæran beygjuradíus, örlítið innan við 10 m, sem er hentugt í litlu landi. Sömuleiðis er stýrið létt; stundum nánast of létt, það mætti vel þyngjast fyrr með auknum hraða.

Sem sjá má er rúmt fram í, en þrengra um …
Sem sjá má er rúmt fram í, en þrengra um smáfólkið aftur í. Kristinn Magnússon

Rafhlaða fyrir suðvesturhornið

Áður en lengra er haldið er rétt að ítreka að Fiat 500e er hugsaður sem borgarbíll, þó hann standi sig vel á hraðbrautinni til Keflavíkur líka. Hleðslan dugir hins vegar ekki til Akureyrar, hinnar viðurkenndu viðmiðunar rafbíladrægis á Íslandi. En það er meira en nóg í daglegan akstur á suðvesturhorninu.

Ég mæli með Range-stillingunni, sem opnar fyrir eins fetils akstur og endurhleðslu þegar bíllinn hægir á sér. Fiat 500e er frekar ákafur við endurhleðsluna, svo maður þarf aðeins að venja sig við það og halda létt við fetilinn svo hann hann hægi ekki of ört á sér og stansi.

Margir rafbílaeigendur finna til hleðslukvíða, en til þess að slá á hann má nota allt að 85 kW hleðslu. Á La Prima, 42 kWh gerð bílsins, tekur aðeins rúman hálftíma að ná 80% hleðslu með 85 kW hleðslustöð, liðlega fjóra tíma að ná 100% hleðslu með 11 kW hleðslustöð, en meira en 15 tíma með snúru í vegg.

Það er nóg af samkeppni þegar kemur að smærri rafmagnsbílum, en vegna ásýndar eru keppinautar 500e færri en virðist við fyrstu sýn. Þar má sjálfsagt helst nefna Mini Electric eða Honda e, sem eru um flest býsna sambærilegir, en þó að Fiat 500e sé ekki beinlínis ódýr bíll þá kemur hann sterkur inn í þá keppni.

Farangursrýmið er lítið, en leggja má sætin, ekki alveg flöt …
Farangursrýmið er lítið, en leggja má sætin, ekki alveg flöt þó. Kristinn Magnússon

Fallegt og sígilt útlit

Tilsýndar er Fiat 500e sjálfsagt einn fallegasti rafbíllinn í boði. Hönnunin er klassísk, nær að vera bæði retró og nútímaleg. Þegar betur er að gáð má sjá ýmsar nýjar en fínlegar hönnunarútfærslur, sem undirstrika það vel.

Eins og vera ber á rafbíl þarf ekkert grill, en nýju lugtirnar og ávalar línurnar hæfa formi bílsins fullkomlega og draga úr loftmótstöðu. Krómið er ekki jafnáberandi og áður, svo hann virðist straumlínulagaðri, stefnuljósin eru í litlum uggum efst á frambrettunum og handföngin greypt inn í hurðirnar. Afturljósin eru hins vegar eilítið útstæð, sem gerir bílinn eilítið rennilegri. Það er líka vindskeið, en hún er eiginlega bara þakskegg til skrauts.

500e er aðeins stærri en fyrri gerðir, 6 cm lengri og breiðari, en 3 cm hærri. Hann breikkar aftur með bílnum, sem gerir hann sportlegri og var hann þó fjörlegur að sjá fyrir.

Vandað innanrými

Það er kannski klisjukennd kímni að segja um vel heppnaða smábíla, að þeir séu stærri að innan en utan. Það á hins vegar vel við um Fiat 500e. Það er talsvert rýmra um ökumanninn og hann situr betur og hærra en í fyrri gerðum. Samt er gott höfuðrými upp á að hlaupa.

Hið sama er hins vegar ekki að segja aftur í, þar er plássið af skornari skammti og ekki bjóðandi fullorðnu fólki nema til stystu ferða. Þeir munu líka eiga erfitt með að klöngrast inn í bílinn fram hjá framsætinu, þó að hægra megin sé raunar hálfhurð aftur í sem gerir það vel mögulegt. Og hún er algerlega nauðsynleg ef fólk er með barnabílstól. Fyrir krakka undir 10-12 ára aldri er þetta fínt, þó að það sé ekki rúmt um þá.

Fiat 500e er ekki síður rennilegur að aftan en framan …
Fiat 500e er ekki síður rennilegur að aftan en framan og ber með sér að margur er knár þótt hann sé smár. Kristinn Magnússon

Vel búið um ökumann

Það er rétt að minnast á stýrið, sem er klætt mjúku gerviefni með góðu gripi. Nær allt sem maður þarf að sjá í mælaborðinu er á skjá bak við stýrið og á því eru mjög vel fyrirkomnir hnappar til þess að virkja ýmsar akstursstillingar og stýra tónlistinni, svo maður þarf aldrei að hafa augun af veginum eða hönd af stýri til þess að eiga við það allt.

Í La Prima er sem fyrr segir einnig flatskjár á miðju mælaborðinu, þar sem nota má bæði Apple CarPlay og Android Auto. Til þess að gera lífið enn léttara er líka hleðslubakki fyrir nýrri snjallsíma, sem kunna deili á þráðlausri hleðslu.

Hljómgæðin í La Prima eru hreint ágæt, þar sem sex hátalarar sjá um að fylla þennan litla bíl.

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að hönnuðir Fiat hafa staðist þá freistingu, sem flatskjáirnir hafa leitt ýmsa aðra framleiðendur í, að hafa öll stjórntæki á skjánum. Til þess að fólk sé ekki að fálma sig í gegnum valmyndir í akstri fær miðstöðin sína eigin hnappa í efnisheimi.

Þrengist um

Þótt bíllinn sé smár er geymslurýmið ágætt. Það eru hólf í hurðunum, djúp geymsla milli framsætanna (með USB-tengi og 12v innstungu), sniðugur kaffibollahaldari og rúmt hanskahólfið. Hins vegar gegnir nokkurri furðu að það sé ekki USB-tengi aftur í, sem bendir til að hönnuðurnir eigi ekki börn.

Þegar kemur að farangursrými er plássið hins vegar af skornari skammti. Skottið er lítið og þó þar megi vel koma fyrir vænni íþróttatösku eða hóflegum helgarinnkaupum (maður saknar þó snaga fyrir pokana), þá sleppur ekki meira en miðlungi stór ferðataska í það. Þá kemur sér vel að geta lagt aftursætin niður, sem ættu að duga fyrir ríflegan farangur. Það er örlítið geymslurými undir skottinu fyrir kapal og verkfæri, en raunin er sú að maður þarf að hafa kapalpoka í skottinu til flestra ferða.

Steinliggur í beygjum

Fiat 500e er hljóðlátur bíll og farþegarýmið er sæmilega hljóðeingrað, en þó heyrist veghljóðið greinilega þegar maður er kominn á 80 km í Ártúnsbrekkunni. Hins vegar er vindhljóð hverfandi nema rétt við frampóstana, sem væntanlega endurspeglar litla loftmótstöðu.

Fjöðrunin í þessum litla bíl er talsvert stífari en maður býst við af borgarbíl. Það er ekki vegna þess að hann sé svo mikill sportbíll, heldur vegna þess að hann er rafbíll með rafhlöðu og vegur ríflega 1,3 tonn.

Fyrir vikið finnur maður vel fyrir veginum, sem eru ekki góð tíðindi fyrir borgarbúa með holugrafið vegakerfi. Hann er alveg í lagi á malarvegi, en að óreyndu grunar mann að hann væri ekki skemmtilegur á þvottabretti. Hins vegar er hann ekkert sérstaklega næmur fyrir hraðahindrunum, svo það á alveg að sleppa með varúð í akstri. Fjöðrunin gerir hann líka þrælfínan á bugðóttum vegum dreifbýlis í grennd við borgina, hann er ekki svagur í beygjum og steinliggur, alveg þannig að það er ánægja að aka honum.

Það er þó rétt að benda á að þetta er framhjóladrifinn bíll, svo gripið getur verið minna en þarf ef menn fara af of miklum þrótti og bjartsýni inn í beygjur.

Öryggið í fyrrúmi

Fiat 500e skorar talsvert hærra en fyrirrennarinn í Euro NCAP-prófinu og fær fjórar stjörnur af fimm. Öryggi fullorðinna var með 76% og öryggi barna í bílnum á 80%, sem er vel þolandi í ekki stærri bíl og svipað og aðrir bílar í sama flokki.

Það hefur einnig verið rækilega bætt í akstur með aðstoð, ekki alveg þannig að bíllinn sé sjálfakandi, en hraðastilling með aðlögun (þar sem tillit er tekið til annarar umferðar) er alveg ágæt, akreinavari virkar vel (á þeim fáu stöðum þar sem vegmerkingar eru í lagi eftir veturinn), sömuleiðis er sjálfvirk neyðarhemlun býsna skynug, blindblettsvarinn einnig og svo mætti áfram telja. Allt má það stilla, en eins er vert að hafa í huga að hugbúnaðaruppfærslur munu bæta þessi kerfi til framtíðar.

Útsýni ökumannsins er alveg prýðilegt og maður hefur góða tilfinningu fyrir umhverfinu, bakkmyndavélin er staðalbúnaður og í La Prima eru nemar hringinn í kringum bílinn til þess að aðstoða við að leggja ökutækinu. Og af því að hann er agnarsmár og beygjuradíusinn eins og í Lundúnataxa þá er hægt að leggja honum í ótrúlegustu smugur.

Krúttleg smáatriði

Það má finna ýmislegt smálegt í Fiat 500e, sem gerir hann enn krúttlegri en annars. Þannig má koma auga á ógreinilega upphleypta mynd af elsta Fiat 500 frá 1957 í hurðinni innanverðri og í hleðslubakka símans er ámóta mynd af turnum og spírum Tórínó-borgar. Hið frumlegasta hlýtur þó að vera hljóðið, sem bíllinn gefur frá sér þegar honum er ekið undir 20 km hraða, til þess að gangandi vegfarendur geti uggað að sér. Aðrir framleiðendur láta sér nægja gervivélarhljóð eða píp, en ekki Fiat 500e, sem lætur óma titillagið úr Fellini-myndinni Amarcord (sem þýðir fortíðarþrá).

Smekkurinn ræður

Fiat 500e er býsna nálægt því að vera fullkominn borgarbíll, hann er ákaflega fallegur, lipur og snar; praktískur nema fólk hafi mikinn farangur eða fullorðins farþega að staðaldri. Hann kemst langt út fyrir borgina þó hann komist ekki til Akureyrar á einni hleðslu og hann er fljótur að hlaðast í alvöru hleðslustöð. Og verðið er mjög samkeppnisfært. Það má finna eitt og annað hjá keppinautunum Honda e og Mini Electric, sem er betra, en það er líka nóg sem er betra í Fiat 500e, þannig að þar mun smekkur miklu ráða. Og hver ætlar að keppa við Ítali um smekkvísi?

Fiat 500e La Prima

» Árgerð: 2022

» Vél: 87 kW rafvél

» Rafhlaða: 42 kW

» Drif: Framhjóladrifinn

» Afl: 118 hö., 220 Nm

» 0-100 km/klst.: 9,0 sek.

» Hámarkshraði: 150 km/klst.

» Drægi á einni hleðslu: 305 km eða allt að 433 km

» Eigin þyngd: 1.365 kg

» Farangursrými: 185 l / 550 l

» Umboð: ÍsBand

» Grunnverð: 4.999.000

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: