Ótemjan sem allir þekkja

Framendi bílsins er einstaklega vel heppnaður. Bæði grill og framljós …
Framendi bílsins er einstaklega vel heppnaður. Bæði grill og framljós minna mjög á upprunann. Árni Sæberg

Þarna er hann,“ sagði sölustjóri Ford hjá Brimborg um leið og hann rétti mér lykilinn að nýja helgarbílnum. Og þarna var hann – glænýr Ford Bronco. Goðsögn sem talað hefur verið um í áratugi, eða frá árinu 1966 þegar framleiðsla fyrst hófst.

Sá bíll sem reynsluekið var er af Wildtrak-útfærslu, 330 hestafla jeppi með 2,7 lítra sex sílindra bensínmótor. Uppgefnar eyðslutölur eru 14 l/100 km, samkvæmt WLTP. Þetta er auðvitað einhvers konar viðmið, bíllinn fór aldrei undir 19 l/100 km þessa helgi. En það er líka bara allt í lagi. Enginn kaupir sér Ford Bronco í von um að spara bensínpening. Allir vita að Bronco eyðir öllu sem sett er á hann.

Fyrsta snerting leggur grunn að því sem koma skal. Voldugt handfang er það sem gripið er um til að opna ökumannsdyrnar. Við það poppar hliðarrúðan niður um nokkra millimetra, glerið er rammalaust og þessi aðgerð sleppir rúðunni lausri frá einangrun bílsins. Þetta minnti mig á þann tíma þegar ég átti silfurlitaðan Ford Mustang GT – 4,6 lítra átta sílindra leikfang. Þá var árið 2006 og allt var í blóma. Man raunar ekki eftir rigningardegi það ár. Jæja, aftur að Bronconum.

Hesthúsið er opið og minnir á fyrri tíma. Þessi bensínmótor …
Hesthúsið er opið og minnir á fyrri tíma. Þessi bensínmótor er bæði kraftmikill og djúpraddaður. Árni Sæberg

Gamli tíminn ríkjandi

Ökumannssætið hélt vel utan um mig, þægilegt með góðum stuðningi. Ofarlega var búið að þrykkja merki Broncosins í leðrið – prjónandi ótemja. Skemmtilegt smáatriði sem minnir á upprunann. Þetta er jú bíll með sögu, nokkuð sem skortir mjög þegar horft er yfir þá einsleitu flóru sem einkennir flesta nýja bíla.

Leðurklætt stýrið er voldugt og veitir gott grip. Í sjálfu sér er ekkert merkilegt við það, þetta er bara venjulegt „takkastýri“ með þremur örmum. Takkarnir í stýrinu eru í takt við það sem þú átt von á, s.s. stillingar í útvarpi, hraðastillir og sími. Allt auðvelt í notkun og útskýrir sig sjálft. Samt þægilegt.

Mælaborðið er auðvelt í aflestri. Í vinstra horni er hraðamælir af gamla skólanum, í miðju má finna bensínmæli, hraðamæli og snúningsmæli í stafrænu formi. Í hægra horni er svo upplýsingaskjár sem hægt er að fletta til að nálgast ólíka hluti. Í fullri hreinskilni þá minnir skjáupplausnin svolítið á gamla Textavarpið – þetta virkar en er ekki frábært fyrir augað. Sjálfur var ég þó fljótur að gleyma þessu. Akstursánægjan sá til þess.

Í Bronco situr maður hátt. Þetta er stór bíll, næstum fimm metrar á lengd og tæpir tveir á hæð. Breiddin er svo rúmlega tveir metrar, með speglum.

Það fyrsta sem ég tók eftir undir stýri var húddið. Það er breitt og rammað inn með tveimur festingum sem auðveldlega geta borið fullorðinn karlmann. Sé fyrir mér að henda hreindýri á húddið og binda það niður. Myndi þó auðvitað fyrst setja dúk undir, vil ekki rispa lakkið. En þó ég myndi aldrei henda veiðibráð á húddið þá eru festingarnar nauðsynlegar. Þær veita bílnum sterkan svip. Hann verður einhvern veginn meira „röff“ svona.

Þessi bíll öskrar á gamla góða tímann og manni finnst nánast eins og Thatcher sé í Downingstræti og Reagan í Hvíta húsinu.

Í hesthúsinu er vélin algerlega óvarin, ekkert plast til að fela hana – rétt eins og í gamla Mustangnum mínum. Framstuðarinn er úr járni, ekki endurunnu plasti; loftnetið er skrúfað á húddið og því auðveld bráð fyrir barnunga hrekkjalóma í hverfinu; framljósin og grillið minna á liðinn tíma; framrúðan er lítt hallandi og rúðuþurrkurnar litlar. Aftur, alveg eins og í mínum gamla Mustang. Sakna hans.

Og vélarhljóðið. Það má ekki gleyma því. Allir þekkja þetta djúpa bassaöskur. Þið vitið, þetta gamla góða ameríska mótorhljóð. Til hvers voru þeir Bang & Olufsen eiginlega fengnir til að sjá um hljómkerfið í þessum bíl – vilji menn hlusta á tónlist þá er bara stigið á bensínið. Vélin sér um flutninginn.

Hér er vert að stoppa um stund og þakka Ford fyrir að virða söguna. Ég meina, væri hægt að búa til rafknúinn Ford Bronco þar sem eina „vélarhljóðið“ er vandræðalegur ómur þegar sett er í bakkgír – Ég held ekki.

Innréttingin er fremur einföld en sannfærandi. Staðalbúnaður er góður og …
Innréttingin er fremur einföld en sannfærandi. Staðalbúnaður er góður og sætin, hvort sem þau eru frammi í eða aftur í, eru þægileg. Árni Sæberg

Ólíkur öllu öðru á veginum

Frá Brimborg var haldið heim í Hafnarfjörð. Til að komast þangað þurfti að færa gírskiptinguna í „D“ og til þess þurfti að ýta á og halda inni klunnalegum takka sem gaf frá sér áberandi „klikk“. Aðeins þá var hægt að færa skiptinguna. En þetta á að vera svona. Bronco er ekki bíll fyrir þá sem vilja fínlegar hreyfingar, litla takka og tölvuskjá sem stjórnar minnstu smáatriðum. Þvert á móti er þetta einmitt bíll fyrir þá sem vilja halda um stýrið með vinstri hendi á meðan hægri hvílir á gírskiptingunni þaðan sem auðvelt er að snúa og ýta á þá takka sem nauðsynlegt er hverju sinni.

Hefði ég þó fengið einhverju ráðið varðandi hönnun þá væri gírskiptingin á stýrinu hægra megin og lyklasviss þar undir. Í Bronco finnst mér réttast að snúa lykli til að ræsa mótorinn í stað þess að ýta á takka. Svo er eitthvað við það að rífa í gírstöng á stýri og renna í gír. En því miður er hönnunin ekki svona.

Maður þarf ekki að keyra Broncoinn lengi til að átta sig á því að bíllinn er ólíkur öllu öðru á vegum landsins. Jú, auðvitað má finna aðra jeppa frá Bandaríkjunum, Evrópu og hugsanlega einnig Japan sem vekja athygli. En allir hafa séð þessa bíla, oft og mörgum sinnum. Broncoinn er enn sem komið er allt öðruvísi. Hann er áberandi, stór, hávær og gamaldags. Þetta er goðsögn. Og allir þekkja Bronco þegar þeir sjá hann.

„Vá maður, þetta er geggjaður jeppi,“ sagði fimm ára sonur minn þegar heim var komið. Stuttu seinna var bíllinn búinn undir fimm manna fjölskyldu og þrír barnabílstólar tengdir – tveir aftur í og einn í framsæti. Já, ég er í þeim pakka. Með fjölskylduna alla, krakka hér og þar og konuna í miðjusætinu, var lagt af stað í bíltúr. Ég vissi að Broncoinn væri góður á malbiki en nú var komið að því að sleppa honum lausum á möl og ójöfnu.

Skemmst er frá að segja að jeppinn hló að öllu sem ég kastaði í hann. Þótt Bronco sé ekki á loftpúðum, eins og flestir hans keppinautar, þá er jeppinn búinn fjöðrun sem sögð er hönnuð fyrir hraðakstur við erfiðar aðstæður. Og hún virkar. Bíllinn er sennilega betri á malarvegi en malbiki en ef þú skyldir gleyma að hægja á þér innanbæjar fyrir hraðahindrun þá skiptir það engu. Fjöðrunin étur ójöfnuna og biður bara um meira.

Á malarvegi er fjórhjóladrifið öruggt og aflmikill mótorinn skilar þér auðveldlega upp bröttustu brekkur án þess að gefa nokkuð eftir. Það eina sem ég sakna er að hafa ekki fengið bílinn þegar þyngstur snjór var. Það hefði verið gaman að leggja Kára gamla í einvígi.

Hafandi sagt Bronco vera stóran þá er hann ekki klunnalegur. Það er t.a.m. leikur einn að keyra um þröngar borgargötur, ökumaður er í raun ótrúlega fljótur að átta sig á stærð bílsins. Vilji menn hins vegar smá aðstoð þá býður Broncoinn upp á hin og þessi öryggiskerfi, s.s. veglínuskynjara, myndavél fyrir blindsvæði, nálægðarskynjara að framan og aftan, árekstrarvara með sjálfvirkri neyðarhemlun og 360 gráðu myndavél. Myndefninu er svo varpað upp á 12” LCD-snertiskjá, en hann er bæði mjög skýr og snöggur. Ekkert hik eða vesen kom upp á meðan reynsluakstur fór fram.

Þá er einnig vert að geta þess að mjög auðvelt er að tengja snjallsíma við upplýsingakerfi bílsins og þannig m.a. hægt að spila tónlist eða notast við leiðsögukerfi.

Innréttingin hefur á sér kraftmikið yfirbragð, allt niður í smæstu …
Innréttingin hefur á sér kraftmikið yfirbragð, allt niður í smæstu smáatriði. Árni Sæberg

Alvöru ótemja

Ford Bronco er með rafdrifna læsingu á fram- og afturdrifi sem stjórnað er með tökkum sem finna má ofan á miðju mælaborði. Til viðbótar býður bíllinn svo upp á nokkrar mismunandi stillingar sem búa hann undir ólíkar akstursaðstæður, s.s. sand, grjót og drullu. Þarna er einnig að finna sportstillingu og einhvers konar sparakstur.

Ok, stoppum hér aðeins og viðurkennum eitt. Það mun enginn Broncoeigandi keyra bílinn sinn í sparakstursstillingu. Þetta er því algerlega óþarfur eiginleiki. Sportstillingin er hins vegar jafn nauðsynleg og súrefni. En hún er varasöm.

Um leið og kveikt er á henni fer jeppinn úr afturhjóladrifi og í fjórhjóladrif. Svo verður hann reiður. Eiginlega alveg brjálaður. Og krafturinn. Vá! Þetta er kannski svipað því þegar kúreki rekur spora af hörku í fák sinn. Þá er vissara að halda sér fast.

Nýtur sín best á vegleysu

Ákveðinn ævintýraandi hefur ríkt yfir Bronco frá upphafi. Í raun er þessi jeppi eins konar tákn fyrir hinn frjálsa mann vestanhafs. Og til að standa undir því býður Broncoinn ekki einungis upp á ferðafrelsi með miklum aksturseiginleikum, á malbiki jafnt sem vegleysu, heldur má breyta honum eftir þörfum. Með bílnum fylgir topplyklasett og með því er hægt að losa hurðir af og upplifa þannig óbeislað frelsi. Hið sama á við um þakið. Það er í nokkrum einingum og leikur einn að opna það. Þannig mætti t.d. opna þakið bara yfir framsætum, nú eða bara opna það allt og njóta til fulls. Þitt er valið.

Bronco er fyrir fólk sem vill frelsi til að ferðast óhindrað. Þetta er bíll sem er á heimavelli úti á landi, helst fullur af útivistardóti og fólki í leit að nýrri upplifun og ævintýrum.

Með þessu er ég ekki að segja að bíllinn henti illa borgarumhverfinu, hann bara nýtur sín best á vegleysu og helst í mikilli ófærð. Sterkbyggð fjöðrunin og grófu 35" dekkin tryggja að Broncoinn heldur áfram ferð sinni við hvaða aðstæður sem er.

Í stuttu máli sagt þá er Ford Bronco Wildtrak alvöru jeppi. Og í raun alveg „geggjaður“, eins og sonur minn komst að orði. Hafi ég ekki verið Bronco-maður fyrir, þá er ég svo sannarlega orðinn það núna!

Bronco reynsluakstur Það er mjög auðvelt að losa þakið og …
Bronco reynsluakstur Það er mjög auðvelt að losa þakið og hleypa bæði birtu og lífi inn í bílinn. Til þess þarf aðeins að snúa nokkrum sveifum og fjarlægja þakeiningar. Þeim má svo koma fyrir í sérstökum töskum sem fylgja. Árni Sæberg

Ford Bronco Wildtrak

Vél: 2,7 EcoBoost

Orkugjafi: Bensín

330 hestöfl / 557 Nm

Eyðsla: 14l/100 km í blönduðum akstri samkvæmt WLTP

Skipting: Sjálfskiptur, 10 gíra

Burðargeta: 600 kg

Dráttargeta: 1,569 kg

Lengd: 4,811 mm

Breidd m/speglum: 2,014 mm

Hæð: 1,924 mm

Vaðdýpt: 924 mm

Veghæð: 279 mm

Umboð: Brimborg

Verð frá: 19.990.000 kr.

Varadekk á skotthlera setur sterkan svip á jeppann. Ekki þarf …
Varadekk á skotthlera setur sterkan svip á jeppann. Ekki þarf þó að hafa áhyggjur af staðsetningunni því dekkið þvælist ekkert fyrir útsýni ökumanns um afturrúðuna. Baksýnisspegill er einnig stór og skýr. Árni Sæberg
Farangursrými er stórt og tvískiptur hlerinn opnast vel
Farangursrými er stórt og tvískiptur hlerinn opnast vel Árni Sæberg
Bíllinn er afhentur á þessum vígalegu 35
Bíllinn er afhentur á þessum vígalegu 35" dekkjum og þau fara hon- um afskaplega vel. Svartar felgur og stigbretti styrkja líka útlitið. Árni Sæberg
Afturljósin eru einstaklega falleg og ótemjan þar við tákn um …
Afturljósin eru einstaklega falleg og ótemjan þar við tákn um hvað er hér á ferð Árni Sæberg
Þótt Bronco komi tilbúinn til að takast á við náttúruna …
Þótt Bronco komi tilbúinn til að takast á við náttúruna er einnig gert ráð fyrir að eigendur vilji bæta við aukabúnaði og eru þessir takkar hugsaðir til þess, svo sem ljósastýring Árni Sæberg
Hliðarspeglarnir eru festir við bílinn sjálfan en það er vegna …
Hliðarspeglarnir eru festir við bílinn sjálfan en það er vegna þess að hægt er að fjarlægja hurðir með fremur einföldum hætti Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina