Nýr Ferrari bíll Eric Clapton

Hver væri ekki til í einn svona sérsmíðaðan frá Ferrari, …
Hver væri ekki til í einn svona sérsmíðaðan frá Ferrari, en þá er eins gott að eiga 600 milljónir.

Ferrari á það til að sérhanna bíla fyrir fólk sem á svo mikla peninga að það getur borgað fyrir slíkt. Einn þeirra er breski popparinn Eric Clapton. Hann á þennan forkunnarfagra bíl í Ferrari litnum eina, rauðum.  Heiðurinn af útliti hans á Ferrari Special Projects og Pininfarina. Þessi bíll Claptons sem ber nafnið SP12 EC er byggður á 458 bíl Ferrari en hliðar bílsins eru mjög framandi og eiga skyldleika við 512 BB bíl Ferrari frá árunum kringum 1980. Ekki að spyrja að nostalgíunni hjá Clapton, en þá var hann ungur maður sem örugglega dreymdi um Ferrari bíl.

Reyndar eftir að popparinn auðgaðist hefur hann keypt eina 3 slíka bíla, en vildi nú einn nýjan sem hefði fjölskyldusvipinn. Clapton óskað efir því að Ferrari træði ógnarstórri V12 vél ofan í húddið á honum en flest virðist samt benda til að þar sé V8 vél, 4,5 lítra og sú sama og er í 458 bílnum. Hvað skyldu svo herlegheitin kosta Clapton? Ferrari hefur ekkert gefið upp en áætlað er að það sé um 3 milljónir punda, eða ríflega 600 milljónir króna. Það virðist vera gangverðið á sérsmíðuðum bílum frá Ferrari.

mbl.is

Bloggað um fréttina