Öruggasti bíllinn í fríið

Fátt er jafn pirrandi og það að vera lagður af …
Fátt er jafn pirrandi og það að vera lagður af stað í fríið á heimilisbílnum sem svo bilar.

Bresk könnun sem studdist við rannsókn á ábyrgðartryggingum bíla leiðir í ljós að öruggasti bíllinn til að fara á í fríið er Toyota Corolla af árgerðum 2001 til 2007. Sá bíll bilaði minnst allra bíla, eða 7% þeirra á hverju ári. Í öðru sæti voru Honda Civic 2006 og Honda Accord 2002 til 2008 með 10%.

Á hinum enda skalans trónir Renault Espace árgerð 2002 til 2012 og Mercedes R-Class 2006. Kaupendur notaðra bíla ættu einnig að horfa til bíla eins og Mazda 3 og Toyota Auris árgerð 2007 ef þeir vilja auka líkurnar á að komast klakklaust gegnum fríið. Þeir voru í fjórða og fimmta sæti.

Það eru helst bilanir í rafkerfi bílanna, fjöðrun eða drifi sem geta eyðilagt fríið. Athygli vekur að aðeins einn evrópskur bíll er í efstu tíu sætunum og er það Peugeot 308. Hinir eru frá Japan. Enginn þeirra bíla sem eru í 10 verstu sætunum er frá Japan. Einn bíll skar sig úr hvað varðar kostnað við viðgerðir en það var Peugeot 807, en meðalkostnaður nam um einni milljón króna.

mbl.is