Kominn er á götuna nýr Chevrolet Malibu, árgerð 2013 og er hann hannaður að öllu leyti af fjórum konum. Þær eru allar hámenntaðir verkfræðingar, sérfræðingar hver á sínu sviði, búsettar í Malibu í Kaliforníu. Unnu þær verkið á bak við tjöldin, í vindgöngum, hönnunarstúdíóum, rannsóknarstofum og á æfingabraut uns afurðin rann fullsköpuð úr bílasmiðjum General Motors.
Allar eru konurnar mæður og þótti GM það ávinningur þar sem hugmyndin var að endurgera Malibu-bílinn sem fjölskylduvænstan. Hann verður ekki einvörðungu til sölu í Bandaríkjunum, heldur í um eitt hundrað löndum. Konur eru kaupendur rúmlega helmings seldra bíla í Bandaríkjunum og koma að ákvörðunum um kaup á 80% allra fjölskyldubíla, að sögn GM.
Það er ekki nýtt að bílasmiðir snúi sér til kvenna við hönnun bíla. Árið 2004 sýndi Volvo til að mynda bíl sem hannaður var fyrir konur af konum. Bíll þessi komst þó aldrei í framleiðslu. Hið sama á ekki við um GM.
Nýi Malibuinn er fyrsti meðalstóri stallbakurinn sem GM smíðar og hyggst framleiða fyrir alþjóðlegan markað. Konurnar hönnuðu hann út frá eigin forsendum um notkunargildi, til dæmis að í honum megi nota allar gerðir og tegundir barnabílstóla. Og þeim hefur tekist að gera bílinn sparneytnari og hljóðlátari að innan sem gerir mæðrum – og feðrum vitaskuld líka – kleift að heyra vel í börnunum í aftursætinu.
Og þessar konur eru líklega ekki dæmigerðar stereótýpur. Straumfræðiverkfræðingurinn Suzanne Cody er t.a.m. einstæð tveggja barna móðir með hárið litað blátt. Í frístundum rennir hún sér á línuskautum og bregður sér á stundum í keppni í línuskautahlaupi. Ásamt aðstoðarmanni varði hún meira en 400 stundum í vindgöngum til að minnka loftviðnám bílsins með þeim árangri að bíllinn kemst fjórum kílómetrum lengra en forverinn á hverju galloni bensíns.
Cody segir það kosta bílasmið lítið að breyta yfirbyggingu til að ná aukinni sparsemi fram en það komi hart keyrðum barnafjölskyldum mjög vel. Gefið er upp að hann fari með 9,5 lítra á 100 km í borgarakstri en 6,3 lítra á þjóðvegum úti. Malibu Eco, eins og ein gerð bílsins heitir, er þegar fáanlegur í Bandaríkjunum en þar er verðmiðinn á honum 26 þúsund dollarar. Aðrar útgáfur af bílnum verða fáanlegar síðar á árinu.