Bílasala í Kína upp um 23%

Chevrolet bílar seljast vel í Kína og flestir vestrænir bílaframleiðendur …
Chevrolet bílar seljast vel í Kína og flestir vestrænir bílaframleiðendur eru með verksmiðjur í Kína til að sinna þessum risavaxna markaði

Þótt bílasala fari þverrandi í Evrópu er ekki það sama að segja um Kína. Í maí nýliðnum jókst hún um heil 23% og taldi 1,28 milljónir bíla. Það er nokkuð umfram spár og hefur það reyndar átt við síðustu þrjá mánuði. Rétt er að hafa í huga að hamfarirnar í Japan í fyrra höfðu áhrif á bílasölu um allan heim og alls staðar gætti skorts á bílum, ekki síst frá stóru bílaframleiðendunum Toyota og Honda, enda er vöxtur þeirra mestur nú.

Toyota meira en tvöfaldaði söluna milli ára og aukningin nam 92% hjá Honda. Salan hjá Nissan jókst hægar, eða um 20%, og Chevrolet, sem er mjög söluhár bíll í Kína, náði 21% aukningu. Búist er við að þessi ágæta þróun haldi áfram á næstu mánuðum. Efnahagurinn gengur ágætlega í Kína um þessar mundir og seðlabankinn þar hækkaði vexti í fyrsta sinn frá 2008, sem bendir til þenslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina