Framhjóladrifinn BMW 1

Ætli tilvonandi eigendur hins nýja framhjóladrifna BMW 1 haldi að …
Ætli tilvonandi eigendur hins nýja framhjóladrifna BMW 1 haldi að hann sé afturhjóladrifinn, eða er þeim bara alveg sama?

Nú er bleik brugðið. Framhjóladrifinn BMW, hver hefði trúað því. Allir bílar BMW eru afturhjóla- eða fjórhjóladrifnir og enginn bjóst við því að það myndi breytast í bráð. Minnsti bíll fyrirtækisins, BMW 1, er í endursmíð og eins og með flesta smábíla samtímans verður hann framhjóladrifinn, öndvert við núverandi BMW 1. BMW stefnir að því að sýna gripinn á bílasýningunni í París í september komandi.

Nýi bíllinn verður með 1,5 lítra bensínvél sem er í raun helmingurinn af 3,0 sex strokka vél BMW. Sami undirvagn verður á þessum nýja ás og á næstu kynslóð Mini. Haft er eftir forstjóra BMW að tilkoma þessa framhjóladrifna BMW 1 sé einungis til að minnka eyðslu og mengun, en það yrði sannarlega á kostnað aksturshæfni bílsins því afturhjóladrifnir bílar hefðu þar mikla getu framyfir framhjóladrifna.

Stefna BMW hefur ávallt gengið út á að bjóða bíla með óskoraða aksturshæfni. Það hefur fram að þessu útilokað þann kost að smíða framhjóladrifna bíla. Eftir að forsvarsmenn BMW komust hins vegar að því, eftir að hafa séð niðurstöðu könnunar, að 80% núverandi eigenda BMW 1-bílsins halda að hann sé framhjóladrifinn, er ef til vill mál að linni. Rétt sé að láta af rétttrúnaði sínum fyrir þá viðskiptavini sem hvort sem er hafi enga tilfinningu fyrir aksturshæfni. BMW hefur semsagt ákveðið að smíða sérstaklega bíl fyrir þá sem vita ekki betur!

mbl.is

Bloggað um fréttina