Forstjóri Volvo segir bíla of flókna

Stjórntæki nýrra bíla eru margslungin og stillimöguleikarnir svo margir að …
Stjórntæki nýrra bíla eru margslungin og stillimöguleikarnir svo margir að venjulegt fólk getur ekki eða vill ekki setja sig inn í þá alla.

Þrír fjórðu eigenda Volvo bíla kunna ekki á þær stillingar sem eru í bílum Volvo. Forstjóri Volvo telur að bílar séu alltof flóknir nú til dags og það eigi við um bíla af flestum gerðum. Forstjórinn, Stefan Jacoby, sagði að bílaframleiðendur ættu að taka Apple fyrirtækið sér til fyrirmyndar og vörur þess. Eigendur þeirra ættu yfirleitt ekki í neinum vandræðum með að skilja stjórntæki Apple tækja, þau væru auðskilin og eigendurnir fullnýttu yfirleitt þá möguleika sem í þeim bjóðast.

Stefan sagði að ef Volvo bílar ættu að verða samkeppnisfærir áfram þyrfti að gera stjórntæki í bílunum einfaldari og auðskiljanlegri. Einnig þyrftu allir tengimöguleikar að vera til staðar í bílum Volvo svo fullnýta mætti öll önnur tæki sem tengja má í bíla.

Forstjórinn viðraði einnig skoðanir sínar um framtíð „plug-in-hybrid“ bíla Volvo og annarra framleiðenda. Bíla með þeirri tækni má hlaða með venjulegu heimilisrafmagni, en afl þess bætist við afl hefðbundinna brunavéla sem í slíkum bílum eru. Þær ættu bjarta framtíð og ekki væri ólíklegt að hver einasta gerð Volvo bíla muni brátt bjóðast með þessari tækni.

mbl.is

Bloggað um fréttina