Fuglar drita á rauða bíla

Varasamt er að láta fugladrit liggja lengi á lakki bíla, …
Varasamt er að láta fugladrit liggja lengi á lakki bíla, en súrt dritið étur sig hægt og rólega inní lakkið.

Svo virðist sem fuglar himinsins geri greinarmun á lit þegar kemur að því að gera þarfir sínar á bíla okkar mannfólksins. Þeir bílar sem mest verða fyrir barðinu á fuglaskít eru rauðir, en 18% rauðra bíla voru útskitnir í breskri könnun sem gerð var í Brighton, Glasgow, Leeds, Manchester og Bristol. Næst á eftir rauðum kom blár en 14% blárra bíla hlutu sömu örlög. Litur þeirra bíla sem minnst er skitið á er grænn, en aðeins 1% slíkra bíla höfðu orðið fyrir barðinu á fuglaskít.

Í könnuninni voru eigendur bílanna spurðir að því hversu fljótt þeir þrifu fuglaskítinn af bílum sínum. Aðeins einn af hverjum sex sagðist hreinsa skítinn af strax en meira en helmingur sagðist bíða með það að næsta bílaþvotti. Að skilja lengi eftir fuglaskít á lakki bíla getur verið varasamt því súrt dritið étur sig inn í lakkið og eyðileggur það. Varlega áætlað þurfa Bretar að eyða 11 milljörðum króna í lakkviðgerðir á bílum sínum á ári. Þessi staðreynd er því þörf áminning um að láta aldrei fugladrit liggja lengi á lakki bíla sinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina