Hvað er það með þýska bíla sem höfða allra bíla mest til bílakaupenda? Bílar eins og Audi, BMW, Mercedes Benz og Porsche. Þessu tók Fortune blaðið að sér að svara og setur fram 10 helstu ástæður þess. Sú fyrsta er sú að þýskir bílaframleiðendur eru búnir að smíða bíla lengur en nokkur önnur þjóð, en Karl Benz smíðaði jú fyrsta bílinn árið 1886 eftir að hann hafði fengið einkaleyfi 7 árum áður fyrir sprengihreyfil sinn.
Önnur ástæðan sem Fortune gefur upp er sú að Þjóðverjar eru með þjóða mestu og lengst kappakstursreynslu, þar sem bílar þeirra eru reyndir til hins ýtrasta. Nürburgring brautin kemur þá fljótt upp í hugann.
Þriðja ástæðan er sú að í Þýskalandi eru 8.000 kílómetrar af hraðbrautum þar sem leyfður er svo til ótakmarkaður hraði og það kemur bílaframleiðendum til að smíða bíla sem standast slíka raun og eru almennilega teknir til kostanna þar.
Sú fjórða er stefnufesta og trúverðugheit framleiðendanna. Sem lýsandi dæmi fyrir þetta er BMW sem hefur þá eindregnu stefnu að allir bílar þeirra hafi 50/50 þyngdardreifingu milli öxla, allt til að auka akstursgetu þeirra.
Sú fimmta er tæknileg geta Þjóðverja en verkfræðingar þeirra eru þekktir fyrir hæfni og allt vinnulag Þjóðverja sömuleiðis. Í þessu sambandi er auðvelt að minnast slagorðs Audi; “Vorsprung durch technik, sem þýðir “Forskot með tækni”.
Sjötta skýringin er sú að Þjóðverjar almennt búa til hluti sem íbúar annarra þjóða eru sólgnir í, ekki síst þjóða sem búa við síbatnandi efnahag og kaupgetu.
Sú sjöunda orðar Fortune einhvernveginn svona; Hroki með meiningu. Í auglýsingum Benz er m.a. sagt; “Það besta eða ekkert”. BMW segir að þeir búi til “Ultimate Driving Machine” eða “Akstursbíl sem tekur öðrum fram”.
Áttunda ástæðan er sú að framleiðendurnir setja verðið ekki efst í áherslum sínum. Dýrir hlutir og vandaðir kosta og það þurfa kaupendur að sætta sig við, sem og þeir gera.
Níunda ástæðan er skyld þeirri áttundu. Bílar þýsku framleiðendanna er fyrir þá efnuðu og mjög svo efnuðu. Hver sá í millistétt sem reitt getur fram 50.000 dollara getur keypt sér 5-línu BMW, en það þarf stærri bankareikning til að kaupa BMW M5, bankareikning sterkefnaðs fólks.
Sú tíunda og síðasta sem Fortune nefnir er þessi; Allir aðrir eru í öðru sæti. Þessi skýring er mjög svo skyld þeirri sjöundu, en Fortune nefnir að þýsku merkin séu álitin þau bestu vegna þess að þýsku framleiðendurnir segjast einmitt vera það. Þó að merki eins og Cadillac og Lexus reyni að slást í þennan hóp þá tekst þeim það ekki.