Aðdáendur hins goðsagnakennda Citroën 2CV fjölmenntu á götum New York-borgar á sunnudag til að berja bílinn augum en þar var honum ekið um í tilefni þjóðhátíðardags Frakka sem var á laugardag. Um tuttugu bílum af þessari tegund var ekið til New York og um götur borgarinnar í hópi annarra Citroën-eigenda.
„Að aka til New York með mörgum öðrum eigendum Citroën gerist ekki á hverjum degi. Þetta er alveg ótrúleg lífsreynsla,“ segir George Tavares, portúgalskur innflytjandi sem býr í New Jersey. Hann ekur um á rauðum og hvítum Citroën 2CV, árgerð 1987.
Citroën framleiddi 2CV á árunum 1948-1990. Bíllinn var ódýr og hannaður af Ítalanum Flaminio Bertoni. Bíllinn naut ávallt mikilla vinsælda. Margir brandarar urðu til um bílinn, m.a. að hann færi úr „0 upp í 50 km hraða á einum degi“. En þeir sem eiga bíl af þessari tegund hafa tekið miklu ástfóstri við hann.
„Þeir eru brjálæðislegir, þetta eru einstakir bílar tæknilega,“ segir Mark Paulhus sem á einn 2CV árgerð 1974. „Hann var á undan sinni samtíð og stenst enn tímans tönn. Þeir bila lítið og þetta er góður bíll að eiga.“