Það er eðlilegt að láta sig dreyma um að eiga hinn fagra Range Rovre Evoque þótt maður eigi bara einn ódýrasta bíl heims, Tata Safari, sem er framleiddur af indverska bílaframleiðandanum Tata. En þá er bara að bretta upp ermarnar og breyta honum útlitslega í draumabílinn og það gerði einmitt breytingafyrirtækið Big Daddy Customs í Indlandi. Þeir kalla þessa útfærslu sína Moon Rover, sem merkt er rækilega framan á bílunum.
Að innan er Tata-bíllinn algerlega óbreyttur en ytra útlitið er svo til allt breytt og framendi bílsins eiginlega alveg eins og Range Rover Evoque í útliti. Ekki fylgir sögunni hvað svona breyting kostar. Það skondnasta við þetta allt saman er að hið indverska Tata á Rover-fyrirtækið sem framleiðir Land Rover- og Range Rover-bíla, auk Jaguar. Tata keypti þau bæði af Ford, sem ekki tókst að reka þau með hagnaði, en það hefur breyst í höndum Tata.