Jeppamenn óánægðir með lokun hálendisleiða

Hálendið heillar jeppamenn sem komast á marga áhugaverða og forvitnilega …
Hálendið heillar jeppamenn sem komast á marga áhugaverða og forvitnilega staði.

„Ferðamenningin hefur breyst á undanförnum árum. Hátt eldsneytisverð hefur leitt til þess að menn eru eitthvað minna á ferðinni,“ segir Snorri Ingimarsson verkfræðingur og jeppaferðamaður.

„Fara í færri ferðir en láta frekar eftir sér að fara í lengri leiðangra á sumrin. Velja þá dagleiðirnar af kostgæfni og fylgja nokkuð þéttri ferðaáætlun. Margir jeppamenn sem ég hef verið í sambandi við eru einmitt á ferðinni þessa dagana og verða eitthvað fram yfir verslunarmannahelgina,“ segir Snorri. Hann er í forustusveit Ferðaklúbbsins 4X4, sem eru fjölmenn grasrótarhreyfing jeppamanna og teljast félagsmenn í þúsundum.

Mörg stór mál eru í deiglunni meðal jeppamanna í dag. Kurr hefur verið í þeirra hópi m.a. vegna lokunar Vikrafellsleiðar norðan Öskju og slóðans um Vonarskarð, milli Tungnafellsjökuls og Vatnajökuls. Báðar þessar leiðir eru vel greinilegar og fjölfarnar og því voru jeppamenn ósáttir við að ferðalög um þær skuli hafa verið tálmuð.

Sterk tilfinning fyrir umhverfisvernd

„Jeppamenn hafa langflestir sterka tilfinningu fyrir umhverfisvernd.

Ferðast af skynsemi og leyfa sér ekki að valda landspjöllum utan merktra slóða. Samtök okkar hafa höfðað til skynsemi ferðamanna með góðum árangri og við teljum það mun vænlegri leið heldur en boð og bönn með refsivönd á lofti. Við sjáum ekki efnisleg rök með vísun til náttúruverndar með lokun fyrrnefndra leiða. Við teljum því miður líkurnar á utanvegaakstri óábyrgra manna hreinlega aukast með því að loka þekktum fjallaleiðum á þann hátt að það stríðir gegn réttlætiskennd ferðafólks. Sorglegt er að samtök ferðamanna sem ferðast á eigin vegum þurfi nú að eyða kröftum sínum í stapp við yfirvöld frekar en nýta þá óskipta til að stuðla að ábyrgri ferðamennsku. Í raun getur lokun þessara leiða unnið algjörlega í hina áttina miðað við upphafleg markmið,“ segir Snorri sem var austur á fjörðum þegar blaðið ræddi við hann í vikunni. Hugur hans og fjölskyldunnar stefndi þá til fjalla.

„Ferðalög um NA-hálendið eru alltaf skemmtileg. Það er alltaf mjög gaman að fara inn að Snæfelli og um Kárahnúkasvæðið og á tímabili – áður en virkjunarframkvæmdir hófust – sóttu margir til dæmis í Laugavalladal þar sem eru heitar laugar og vinsælir baðstaðir. Hér eystra eru Loðmundarfjörðurinn og nærliggjandi svæði áhugaverð og þegar komið er á Akureyri er upplagt að gera sér leiðangur í Fjörður eða upp úr Eyjafirði í Laugafell, þar sem er góð aðstaða ferðafólks og skemmtilegt að koma. Fyrir jeppafólk á Suðurlandi er frábært að skella sér í Kerlingarfjöll og slá upp tjöldum þar. Aka svo hringinn í kringum Kerlingarfjöllin sem er mjög skemmtileg dagleið,“ segir Snorri Ingimarsson að síðustu.

mbl.is
Loka