Tveir lögreglumenn í New Jersey í Bandaríkjunum hafa komið sér í dágóð vandræði með því að fara fyrir lest ofursportbíla á ógnarhraða á leið til Atlantic City. Þeir voru ákærðir fyrir gjörðir sínar og bíða nú dóms. Vitað er að bílalestin fór talsvert yfir 160 km hraða og sumir bílanna í henni höfðu hulið númeraplötur sínar, allt í leyfi hinna brotlegu lögreglumanna.
Það voru aðrir vegfarendur sem náðu myndum af hinum brotlegu ökumönnum á síma sína er þeir stóðu fastir í umferðarteppu á meðan „hraðlestin“ brunaði framhjá. Annar lögreglumannanna sagði fyrir rétti að hvorugur þeirra hafi hagnast neitt á athæfi sínu, en þeim hefur báðum verið vikið úr starfi.
Dómurum finnst reyndar harla ólíklegt að þeir hafi tekið að sér þetta undarlega hlutverk án þess að fá nokkra umbun fyrir. Þetta er víst ekki í fyrsta skipti sem svona atburður hefur verið festur á mynd, en einnig er verið að rannsaka samskonar mál frá því árið 2010, er lögregla fór fyrir hópi bíla á ógnarhraða.