Ökumönnum hættir til að láta aðvörunarljós í mælaborði bíla sem vind um eyru þjóta þótt dýrkeypt geti orðið. Í rannsókn félags breskra bifreiðaeigenda (AA) kemur fram, að um fjórar milljónir ökumanna hafa þjáðst af „mælaborðsfælni“ þessari og hunsað ljósin að minnsta fimm sinnum á síðustu 12 mánuðum.
Rannsóknin var gerð fyrir hraðviðgerðakeðjuna KwikFit sem er leiðandi á sviði bílaviðgerða í Bretlandi. Kom í ljós, að aðvörunarljós hafði kviknað að minnsta kosti einu sinni í mælaborði hjá 13 milljónum ökumanna – 36% bíleigenda – á árinu.
Þriðjungur þeirra, eða fjórar milljónir, kærði sig kollóttan og leitaði ekki frekari skýringa á aðvöruninni dögum saman. Af þessum hópi héldu 1,2 milljónir uppteknum hætti og skeyttu engu um ljósin í stað þess að leita til verkstæðis til að láta kanna hvað væri á seyði til að koma í veg fyrir alvarlega og rándýra bilun.
Af fyrrnefndum 13 milljónum ökumanna létu aðeins 29% strax athuga hvað var á seyði. Hinir biðu flestir einn til fjóra daga. Algengast er að viðvörunarljós um vanda í vélbúnaðinum kvikni. Í öðru sæti er olíuþrýstingsljósið.
„Það er sláandi að milljónir bílstjóra aka um dögum saman – jafnvel mánuðum – með viðvörunarljósin kveikt. Þeir gætu verið að taka áhættu á alvarlegu tjóni á vélinni, að ekki sé talað um slysahættu,“ segir talsmaður KwikFit.
Íbúar í Norðvestur-Bretlandi fælast mælaborðsljósin mest. Velskir eru hins vegar duglegastir við að láta skoða strax hvað leynist að baki viðvöruninni.
agas@mbl.is