Dacia að hefja innreið ódýrs smábíls

Nýr Sandero verður tápmeiri og táknrænni einkenni en forverinn.
Nýr Sandero verður tápmeiri og táknrænni einkenni en forverinn. mbl.is/dacia

Dacia, dótturfyrirtæki Renault, er kræft í verðlagningu bíla og ætlar að freista þess með Sandero, nýjum ofurmini upp úr áramótum,  að bjóða upp á ódýrasta fólksbílinn í löndum Evrópu.

Dacia Duster hefur notið velgengni vegna lágs verðs og Sandero hinn nýi, sem frumsýndur verður á Parísarsýningunni í haust, er ætlað að sigla þann farveg líka. Verðlagning hans verður verulega hófstillt. Gefið hefur verið upp að í Bretlandi muni verðmiðinn hljóða upp á innan við 7.000 sterlingspund en þar með verður hann skeinuhættur Ford Fiesta sem notið hefur velgengni.

Í ljósi reynslunnar af verðstefnu Dacia telja sérfræðingar að verðið geti orðið enn lægra en sagt er að stefnt sé að. Upphaflega var til að mynda stefnt að Dusterinn yrði seldur á um 10.000 pund en niðurstaðan varð 8.995 pund.

Njósnamyndir sem náðst hafa af nýja Sandero benda til að hönnunin verði svipmeiri og eftirminnilegri en á núverandi útgáfu bílsins. Hann verði þrekvaxnari, kraftmeiri og með meiri karakter. Að sumu leyti stælt eftir Duster, svo sem grillið, framstuðarinn og höfuðljósin. Verður nýja útgáfan ögn stærri en forverinn en hann verður byggður á endurbættum Renault-Nissan B0 undirvagninum sem öll módel Dacia byggja á. Sú stefna hefur leitt til sparnaðar í bílsmíðinni.

Ekkert hefur fengist uppgefið upp á hvaða vélar verður boðið í nýjum Sandero. Hið eina sem sagt hefur verið um það efni er að í bílnum verði „frábær véltækni“. Spáð er að þar verði um að ræða 1,2 og 1,6 lítra vélar og 1,5 lítra dCi dísilvél.

agas@mbl.is

Nýr Sandero verður tápmeiri og táknrænni einkenni en forverinn.
Nýr Sandero verður tápmeiri og táknrænni einkenni en forverinn. mbl.is/dacia
Nýr Sandero verður tápmeiri og táknrænni einkenni en forverinn.
Nýr Sandero verður tápmeiri og táknrænni einkenni en forverinn. mbl.is/dacia
mbl.is