Bandaríska neytendaritið Consumer Report velur árlega og útnefnir fimm vinsæla bíla sem það segir að neytendur ættu að forðast. Meðal þeirra í ár eru Toyota Prius C og Honda Civic, sem notið hafa mikilla vinsælda í Bandaríkjunum.
Blaðið segir að bílarnir fimm séu eflaust ofarlega í huga fólks sem hyggi á bílakaup. Þeim væri nær að láta þá eiga sig. Ástæðan er sú að þeir komu ekki nógsamlega vel út úr tilraunum tímaritsins eða bila oft.
Tímarit þetta er í metorðum haft og eftir umsögnum þess tekið. Auk Prius og Civic eru á lista þess í ár hálfjeppinn Jeep Liberty, Ford Edge og Dodge Grand Caravan.
Blaðið segir að Honda „hafi stytt sér of oft leið við nýjustu útfærslur Civic. Bíllinn sé misþýður á ferð, of mikill hávaði sé í farþegarými, stýrið svari ómarkvisst og lítið sé varið í innréttinguna. Þó megi bíllinn eiga það að hann sé áreiðanlegur og endingargóður, en þess má geta að hann er í annarri útfærslu í Bandaríkjunum en Civic sem seldur er í Evrópu.
Prius C er ódýrasta útgáfa tvinnbílsins frá Toyota og segir blaðið ekki mega blanda honum saman við aðrar útgáfur sem skapað hafi Toyota gott orð á sviði tvinnbíla.
„Það hve hastur hann er, hávaði í farþegarými, slök hröðun og billega útlítandi innrétting þjakar C-bílinn,“ segir blaðið og ráðleggur lesendum að kaupa sér frekar Honda Fit en hann, en þar er þó ekki um tvinnbíl að ræða.
Jeep Liberty fékk einhverja lélegustu einkunn úr reynsluakstri Consumer Report. Segir blaðið aksturseiginleika hans slaka á vegum en viðkunnanlegri utan vegar. Lesendur ritsins gáfu Ford Edge slaka einkunn fyrir endingu, sögðu hana langt undir meðallagi. Þeir kunnu heldur ekki að meta „flókið og innsæislítið“ upplýsinga- og hljómkerfi bílsins, MyFord Touch.
Aðstandendum Dodge Grand Caravan verður tæpast skemmt við lesturinn. Þessi æruverðugi sendibíll er „fjölhæfur, nytsamur og vel búinn. En hann þjáist af braki og brestum, skrölti, slakri innréttingu og óþjálli hliðarhurð. Eyðslusemi hans var ekki til að bæta upp á sakirnar“.
agas@mbl.is