Obama vill helmingseyðslu 2025

Obama forseti Bandaríkjanna ekur Chevrolet Volt út úr bílaverksmiðju.
Obama forseti Bandaríkjanna ekur Chevrolet Volt út úr bílaverksmiðju.

Í dag voru drög að lögum kynnt í Bandaríkjunum sem setja bílaframleiðendum skorður varðandi eyðslu bíla allt til ársins 2025. Með þeim er gert ráð fyrir að eldsneytiseyðsla bíla verði helmingi minni árið 2025 en í dag og að venjulegir fólksbílar eyði þá ekki meira en 4,3 lítrum á hundraðið.

Obama sagði við kynningu laganna að þau myndu auka orkuöryggi þjóðarinnar, vernda umhverfið og spara bandarískum fjölskyldum mikla peninga. Með lögunum myndi eldsneytiseyðsla minnka um 12 milljónir tunna og spara 8.000 dollara á ævi hvers ökutækis. Obama vonast til þess að með lögunum þurfi þjóðin að flytja mun minna inn af olíu en nú.

Í nýju lögunum eru ákvæði sem tryggja kaupendum á tvinnbílum, rafmagnsbílum og metanknúnum bílum endurgreiðslu frá ríkinu við kaup. Gert er ráð fyrir að þessi hvatning kosti ríkið 192 milljarða dollar en sparnaðurinn sem hlýst af minni eldsneytisnotkun verði 515 milljarðar dollara, svo allir græða nema kannski furstarnir á Arabíuskaganum!

Lögin kveða á um að bílaframleiðendur minnki eyðslu fólksbíla sinna um 5% á hverju ári en ekki nema um 3,5% á pallbílum. Athygli vakti við kynninguna að fulltrúar bílasmiðanna General Motors, Ford, Chrysler og Hyundai voru við hlið forsetans og studdu tillögur hans.

Daimler AG sem framleiðir Mercedes Benz-bíla og Volkswagen skrifuðu ekki upp á lagadrögin og mótmæltu þeim með þeim orðum að þau hygluðu framleiðendum á pallbílum, sérstaklega þeim bandarísku.

mbl.is

Bloggað um fréttina