Indverski bílaframleiðandinn Tata Motors stærir sig nú af hugmyndabíl, Airpod að nafni. sem gengur fyrir þrýstilofti og kemst 200 kílómetra á tankfylli . . . já lofts.
Farartækið er á þremur hjólum og ökumaður stjórnar því með pinna í stað stýrishjóls. Sérstakar loftþrýstivélar knýja bílinn áfram en aflgjafi þeirra er þrýstiloft úr eldsneytistanknum.
Að sögn Tata hefur hugmyndabíllinn náð allt að 80 km/klst hraða við reynsluakstur. En í hugmyndafræði að baki bílnum er ekki gengið út frá hraða, heldur hagkvæmni farartækisins.
Eldsneytistankurinn tekur 175 lítra af þrýstilofti sem kostar einungis eina evru. Fyrir þann litla eldsneytiskostnað má komast 200 kílómetra vegalengd. Hvað ætli bíllinn sjálfur kosti svo? Aðeins sem svarar um 7.000 evrum eða röska eina milljón króna.
Bíllinn tekur að hámarki þrjá menn að ökumanni meðtöldum. Annar farþeganna verður að snú aftur. Tata Motors vonast til að bíllinn eigi eftir að verða algengur á götum Indlands og fregnum fylgir, að mikill áhugi sé á Airpod-bílnum í Suður-Ameríku.