Varðsveitir velsæmisins vilja enga glimmerbíla

Glimmerbíllinn í höndum lögreglunnar í Shenyang.
Glimmerbíllinn í höndum lögreglunnar í Shenyang.

Kínverska lögreglan er ekki mikið fyrir glimmer og glans. Slíku virðast altjent takmörk sett þegar bílar eru annars vegar. Það mátti eigandi BMW Z4 bifreiðar reyna er hann fór í bíltúr í borginni Shenyang í norðausturhluta Kína.

Hermt er að mikið sé um óvenjulega útlítandi bíla í Kína og skýringin er sögð sýndarmennska eigendanna sem á sér vilja láta bera. Þótt ólöglegt sé láta flestir sig spjátrungsskapinn engu varða. Þetta getur þó greinilega gengið of langt, að mati lögreglunnar.

Hún gaf allavega þá skýringu er hún lagði hald á BMW-bílinn, að hann væri of skrautlegur, glitrandi sem glingur. Glimmerlakkið sem hann var sprautaður með væri „opinberlega óheimilt“ að brúka. Í það hafði verið blandað kristöllum úr plasti til að framkalla hið glitrandi yfirborð.  

Að sögn lögreglunnar var bíllinn að ýmsu öðru leyti í trássi við lögin. Á hann vantaði til að mynda númeraplötur. Auk þess var hann búinn aukalegum díóðuljósum. Loks voru undir felgur sem snjöll ljós létu líta út sem væru rauðglóandi. Það átti ekki upp á pallborð varðsveita velsæmisins í Shenyang.

Eigandi bílsins þarf að leysa hann til sín með sektargreiðslu að upphæð 500 juan, um 10.000 krónur. En verði hann stöðvaður öðru sinni mun hann að líkindum verða að sjá á eftir bílnum fyrir fullt og allt.

mbl.is

Bloggað um fréttina