Þegar Evoque jepplingurinn kom fram síðasta sumar var hann minnsti bíll framleiðandans sem þekktur er fyrir stóra jeppa. Nú hefur Land Rover í huga að framleiða enn minni bíl sem settur yrði til höfuðs lúxusjepplingunum Audi Q1 og BMW X1. Það virðist ekki heimskuleg hugmynd í ljósi aukinnar eftirspurnar fyrir einmitt þannig bílum.
Margir hafa hinsvegar efasemdir um að Land Rover eigi að taka þátt í baráttunni á slíkum markaði, heldur halda sig við sína flottu og stóru jeppa, annað muni eyðileggja ímynd þeirra. Rétt er þó að hafa í huga að bara á fyrsta ári Range Rover Evoque bílsins seldi fyrirtækið 88.000 eintök og stuðlaði hann ekki síst að miklum hagnaði þess.
Einnig er ástæða til að hafa í huga að þó Evoque sé miklu minni bíll en hefðbundinn Range Rover og Land Rover Discovery kostar hann samt um 44 þúsund bandaríkjadali og 8,4 milljónir króna hérlendis. Því vill Land Rover keppa á markaði fyrir ódýrari og minni jepplinga.