Hefur mikil áhrif á bílaleigur

Bílaleigubílar eru stór hluti af öllum nýjum bílum sem fluttir …
Bílaleigubílar eru stór hluti af öllum nýjum bílum sem fluttir eru til landsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samtök ferðaþjónustunnar segja að afnámi vörugjaldalækkunar sem bílaleigur hafa getað nýtt sér frá árinu 2000 eigi eftir að hafa gríðarleg áhrif. Breytingin muni m.a. leiða til þess að tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum munu lækka.

Frá árinu 2000 hefur bílaleigubílum fjölgað mikið, sérstaklega nýjum og öruggari bílum, og eru bílaleigubílar í dag  samgöngumáti 41% erlendra ferðamanna um hinar dreifðari byggðir landsins.

Bílaleigunefnd SAF ásamt sérfræðingum hefur unnið gögn um áhrif boðaðra breytinga á rekstur bílaleiganna og  kynnt þau fyrir fjármálaráðherra. Þessar breytingar munu m.a. leiða til þess að innkaupsverð bifreiða hjá bílaleigunum mun hækka um 17.4% að meðaltali. Útleiguverð mun hækka a.m.k. um 27% að meðaltali yfir allt árið og kaupgeta bílaleiganna á nýjum bílum munu minnka um 48,9%. 

„Ljóst er að samdráttur í fjölda bílaleigubíla mun hafa mikil áhrif, ekki síst hjá minni fyrirtækjum úti á landi.  Þau byggja flest tilveru sína á gestum sem ferðast um í bílaleigubíl. Bílaleigur hafa þegar gert ráðstafanir um samdrátt í kaupum á nýjum bílum og má gera ráð fyrir að breyting á vörugjöldum bílaleigubíla muni ekki skila þeim tekjum sem áætlaðar eru til ríkissjóðs,“ segir í fréttablaði SAF.

mbl.is