Vísindamenn í Suður-Kóreu hafa þróað nýjan litíumjóna rafgeymi er gæti átt eftir að valda þátttaskilum í framleiðslu rafbíla. Hafa þeir verið 120 sinnum fljótari að hlaða hann en fyrri hefðbundna bílgeyma sem byggja á litíumjóna tækninni.
Nýju rafgeymarnir gætu haft víðtækt notkunargildi, ekki síst við framleiðslu rafbíla, segja vísindamennirnir við vísinda- og tæknistofnunina Ulsan í Suður-Kóreu en þar hefur nýi rafgeymirinn verið til þróunar.
Þeir segja að hlaða megi geyminn nýja á innan við mínútu en langur hleðslutími hefur hingað til verið talinn einn af stærstu ókostum núverandi rafbíla. Verður til að mynda að tengja rafbíl klukkustundum saman við hleðslustaur til að fylla rafgeymana að nýju. Meiri þægindi í því efni myndi falla í góðan jarðveg hjá neytendum, segja sérfræðingar um bílsmíði.
Vegna aukinnar meðvitundar um verndun umhverfis hefur áhugi á lítt- eða ómengandi bílum aukist. Rafbílar eru álitnir standa fremstir á því sviði. Með auknum áhuga á rafbílum hefur eftirspurnin eftir skilvirkari tækni til að knýja rafbílana vaxið. Þeirri eftirspurn freista vísindastofnanir út um allan heim að mæta, eins og framangreind stofnun í Suður-Kóreu.