Í næsta mánuði mun BL hefja sölu á Dacia bílum sem framleiddir eru í Rúmeníu. Fyrsti bíllinn sem boðinn verður til sölu hér á landi er Dacia Duster sportjeppi og verð þess bíls verður 3.990.000 krónur. Fyrstu bílarnir verða tilbúnir til afhendingar í lok október hjá BL, umboðsaðila merkisins. Dacia Duster er fjórhjóladrifinn og með 1,5 lítra dísilvél, 5 hurða og með 6 gíra beinskiptingu.
Á þeim liðlega sjö árum sem Dacia hefur verið til sölu hefur framganga Dacia merkisins verið ein samfelld sigurganga. Á árinu 2012 keyptu meira en 350.000 viðskiptavinir nýjan Dacia í 35 löndum um heim allan. Í Frakklandi varð Dacia fimmti söluhæsti bíllinn árið 2011 og í júlí 2012 var Dacia Duster í sjöunda sæti yfir mest seldu bíla til einstaklinga í Þýskalandi. Dacia er einnig söluhæstur í löndum eins og Rúmeníu og Marokkó.
Lykillinn að árangri Dacia er einfaldur. Þeir framleiða rúmgóða og áreiðanlega bíla á mjög góðu verði. En hvernig er hægt að bjóða svona veglegan bíl á svona hagstæðu verði? Jú með því að láta einskis ófreistað við að einfalda hönnun og framleiðslukostnað eins mikið og hægt er.
Þrátt fyrir ólíkar langanir og óskir gera flestir svipaðar grunnkröfur til bíla og það er einfaldlega haft að leiðarljósi við hönnun Dacia. Við smíði Dacia Duster er auk þess notast við íhluti sem hafa verið reyndir í öðrum bílum sem Nissan/Renault samsteypan framleiðir og reynst hafa vel auk þess sem reynt er að lágmarka tæknibúnað við það sem talið getur nauðsynlegt að bjóða.