Peugeot kitlar með ofurbílnum Onyx

Peugeot bílsmiðurinn franski mun sýna hugmyndabíl að nýjum ofursportbíl á bílasýningunni í París. Hún verður opnuð almenningi á morgun en í dag og gær hafa blaðamenn sprangað þar um sali og kynnt sér það sem þar kemur fyrir augu.

Bílnum hefur verið gefið nafnið Onyx og er eflaust ætlað að höfða til fagurfræðinnar að baki farartæki þessu því ónyx er heiti á dulkornóttu afbrigði af kvarsi sem notað er í skartgripi og listmuni.

Peugeot Onyx er tvinnbíll með svonefndri HYbrid4 drifrásartækni sem endurnýtir hreyfiorku sem alla jafna tapast við hemlun. Sú orka varðveitist í litíujóna rafgeymum sem nýtist síðan sjálfkrafa við hröðun bílsins. Er þar um 80 hestafla viðbót að ræða við 600 hestafla og 3,7 lítra V8 dísilvél sem í bílnum verður. Henni verður fyrir komið í bílnum aftanverðum. Drif er á afturhjólum og gírkassi sex hraða og handskiptur.

Bíllinn er smíðaður úr koltrefjum og vegur aðeins 1100 kíló. Yfirbyggingin er öll meitluð til og Onyx því afskaplega straumlínulaga og loftmótstaða í lágmarki. Heldur Peugeot því fram að hann komist úr kyrrstöðu í 100 km/klst hraða á „innan við“ þremur sekúndum. Við smíðina nýtur Peugeot reynslu sína af smíði velheppnaðra kappakstursbíla.

Við framleiðslu Onyx verða ennfremur beitt nýstárlegum hráefnum. Þannig verður mælaborðið búið til úr viði sem framleiddur verður úr endurunnum dagblöðum. Vængir og hurðir verða úr hreinum koparplötum en ytra byrðið að öðru leyti úr svartlökkuðum koltrefjaeiningum. Allt þak bílsins verður gagnsætt og það ásamt bílrúðunum verður úr ofursterku plastefni.

Loks verða undir Peugeot Onyx dekk frá Michelin sem hafa verið sérlega þróuð fyrir hann. Að framan 275/30 og að aftan 345/30, á 20 tommu felgum. Fjöðrunarbúnaðinn má stilla eftir þörfum á stjórnborði við sæti ökumanns.

mbl.is

Bloggað um fréttina