Fólk ætti að vera minnst eitt ár í ökunámi, að mati breskra tryggingafélaga. Samtök þeirra vilja róttæka uppstokkun á ökukennslu til að ná niður slysatíðni í aldurshópnum 17 til 24 ára.
Þau segja yfirvöld hafa vikið sér hjá því alltof lengi að innleiða mun strangari þjálfun en bílprófsnemar þurfa nú að undirgangast.
Samtökin segja hlutfall óhappa, árekstra og banaslysa í þessum aldurshópi óeðlilega hátt. Vilja þau meðal annars takmarka akstur nýrra ökumanna í myrkri og lækka leyfilegt áfengismagn í blóði þeirra í núll prómill. Ennfremur að fyrsta skírteini ætti að vera til sex mánaða eingöngu.
Þau segja að leyfa ætti mönnum að hefja ökunám hálfu ári fyrr, eða 16 og hálfs árs. Ennfremur ætti að takmarka fjölda farþega sem ungir ökumenn mættu hafa í bílum sínum fyrsta hálfa árið eftir að þeir fengju ökuréttindi.
„Róttækra aðgerða er þörf til að fækka banaslysum, í aldurshópnum 17 til 24 ára. Bifreið getur verið banvænt vopn og við verðum að gera betur til að gera ungu fólki kleift að takast á við hættur sem akstri fylgja. Með því að auka umferðaröryggi ungs fólks myndi tryggingakostnaður þeirra lækka,“ segja talsmenn tryggingafélaga.
Tillögur þessar eru á nokkurn hátt í anda þess sem boðað er hér á Íslandi, í frumvarpi til nýrra umferðarlaga. Þar er til dæmis lagt til að bílprófsaldurinn verði hækkaður upp í átján ár í nokkrum þrepum, ökuskírteini verði gefin út til skemmri tíma en áður og mörk varðandi leyfilegt áfengismagn í blóði ökumanna verði lækkuð talsvert.
agas@mbl.is