Volvo tilkynnti í dag, að fyrirtækið myndi loka helstu bílsmiðju sinni í Svíþjóð síðar í mánuðinum vegna lélegrar eftirspurnar á bílamarkaði í Evrópu, sem er sá mikilvægasti fyrir Volvo.
Bílsmiðjunni í Torslanda í vesturhluta landsins verður lokað 29. október næstkomandi. „Áframhaldandi kreppa bitnar á eftirspurn eftir bílunum okkar,“ sagði fjármálastjórinn og starfandi forstjóri Volvo, Jan Gurander, um þessa ákvörðun í morgun.
Áður hafði Volvo ákveðið að draga úr afköstum í Torslanda en frá síðustu mánaðarmótum hafa verið smíðaðir 50 bílar á klukkustund í stað 57.
Fyrstu átta mánuði ársins er sala Volvo 10,6% minni í löndum Evrópusambandsins (ESB) og EFTA.
agas@mbl.is