Norðurlandabúum mun standa til boða úrval vetnisbíla á árabilinu 2014-2017. Japönsku bílsmiðirnir Honda, Toyota og Nissan og kóreski bílsmiðurinn Hyundai hafa skrifað undir minnisblað með fjölda opinberra og einkasamtaka í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi til að undirbúa markaðinn undir komu vetnisbíla í stórum stíl.
Markmiðið með minnisblaðinu – sem undirritað var í Kaupmannahöfn fyrir helgi – er að flýta fyrir því að vetnisbílar komi á markað á Norðurlöndunum. Meðal annars með því að byggt verði upp net stöðva þar sem hægt er að tanka vetni á bíla.
Samskonar samkomulag var undirritað við Evrópusambandið árið 2009 en í því var talið að árið 2015 gæti orðið upphafsár fjöldasölu vetnisbíla í löndum sambandsins.
Honda skýrði nýlega frá því að nýr vetnisbíll þess yrði tilbúinn til fjöldaframleiðslu fyrir markað í Japan, Bandaríkjunum og Evrópu árið 2015. Honda framleiðir nú þegar slíkan bíl, FCX Clarity, sem verið hefur í þróun mörg undanfarin ár. agas@mbl.is