Bílar frá Dacia, dótturfyrirtæki Renault-Nissan, hafa farið sigurför um Evrópu undanfarið og ræður þar ekki síst hversu billegir þeir eru miðað við keppinautana. Tilkoma Dacia hefur aukið samkeppni, ekki síst á smábílamarkaði. Til þess er tekið, að víða eru bílar Dacia ódýrastir.
Til að mynda er Dacia Sandero ódýrasti fólksbíllinn sem breskum neytendum til boða. Hefur hann velt Suzuki Alto af þeim stalli. Sandero kostar 5.995 pund eða sem svarar um 1,2 milljónum króna.
Alto kostaði sömu fjárhæð meðan hann var boðinn án söluskatts, sem umboðið tók á sig. En með ásettum skattinum á ný hefur þessi hagkvæmi bíll hækkað í 7.195 pund, eða ríflega 1,4 milljónir króna. Er hann fallinn niður í þriðja sæti því í öðru er rafbíllinn Renault Twizy, tveggja sæta bíll þar sem farþegi situr fyrir aftan ökumann. Þessi bíll er kannski meira í ætt við yfirbyggða skellinöðru en er engu að síður vistvænn kostur til borgaraksturs. Hann kostar 6.690 pund, eða rúmlega 1,3 milljónir.
Fjórði ódýrasti nýi bíllinn í Bretlandi er Nissan Pixo, sem kostar 7.250 pund, eða 55 pundum - 11 þúsund krónum - meira en Suzuki Alto.
Fimmta sætið vermir svo Skoda Citigo á 7.630 pund sem er með mun meiri staðalbúnað en framangreindir bílar. Systurbílar hans, SEAT Mii og VW Up! kosta 7.845 og 7.995 pund.
Í næstu sætum eru fjórir bílar sem allir kosta það sama upp á krónu, 7.995 pund eða 1,6 milljónir. Þar er um að ræða Proton Savvy, hinn vel búna Nissan Micra, Citroen C1 - sem reyndar er boðinn með 1.000 punda afslætti um þessar mundir eða á 6.995 pund, og loks Peugeot 107, sem er að miklu leyti sami bíll og C1. Eru frönsku bílarnir tveir byggðir á sama grunni og Toyota Aygo sem kostar öllu meira í Bretlandi, eða 8.535 pund.
Einn bíll til viðbótar er undir 8.000 pundum, hinn svonefndi Perodua Myvi , sem kostar pundinu minna, eða 7.999 pund. Um árabil var annar bíll frá hinum næst stærsta bílsmið Malasíu ódýrasti bíll Bretlands, eða Kelisa. Myvi-bíllinn er fábreyttur en til áramóta er hann reyndar ódýrari því 1.000 punda afsláttur verður á listaverði hans þann tíma.