Rúgbrauðið á endastöð

Það er næsta ótrúlegt til þess að hugsa að þessi …
Það er næsta ótrúlegt til þess að hugsa að þessi bíll sé ennþá í framleiðslu, en nú er komið að endastöð

Þótt ótrúlegt megi virðast er gamla Volkswagen rúgbrauðið enn í framleiðslu og það í Brasilíu. Myndin er af 2012 árgerð bílsins, sem líklega verður þó hin síðasta af þessum goðsagnarkennda bíl. Ástæða þess eru hertar reglur í Brasilíu í öryggismálum.

Þar í landi eiga nú allir bílar að vera útbúnir tveimur öryggispúðum að framan og bremsubúnaði sem ekki læsist við fulla hemlun (ABS). Slíkur búnaður er ekki í rúgbrauðinu, sem ber nafnið Kombi.

Rúgbrauðið var upphaflega þekkt sem Type 2 og kom fyrst á markað árið 1950 og á því samfelldan 62 ára feril, sem teljast verður nokkuð sérstakt. Ekki hafa miklar breytingar orðið á bílnum en á síðasta áratug var loftkælingu vélarinnar þó skipt út fyrir vatnskælingu.

Volkswagen á ansi merkilega sögu hvað það varðar að framleiða bíla sína lengi. Bjallan var framleidd frá árinu 1938 til 2003 og síðustu árin eingöngu í Mexíkó. Bjallan hefur því verið framleidd enn lengur en rúgbrauðið í lítið breyttri mynd, eða 65 ár. Volkswagen framleiddi líka Mkl Golf til ársins 2009 í S-Afríku, en hann kom fyrst á markaðinn árið 1974.

mbl.is

Bloggað um fréttina