Volkswagen Pheaton fær lengra líf

Volkswagen Phaeton er mikill bíll á velli og hefur selst …
Volkswagen Phaeton er mikill bíll á velli og hefur selst ágætlega til nýríkra Asíubúa sem panta þá alla af lengri gerð og nær alla svartlakkaða

Volkswagen Phaeton er ekki einn af söluhærri bílum þýska bílaframleiðandans. Hann þótti frá upphafi hálfgerður misskilningur þar sem hann rímaði engan veginn við aðra lágt verðlagða bíla Volkswagen. Phaeton er rándýr lúxusbíll og er á stærð við Audi A8 og BMW 7-línuna og sagt er að Volkswagen hafi tapað á hverju eintaki hans sem smíðað hefur verið í 10 ára sögu hans.

Engu að síður hefur sú ákvörðun verið tekin að smíða aðra kynslóð bílsins og kemur hann fyrst á markað af árgerð 2015 og því má búast við honum í sölu á haustdögum árið 2014. Volkswagen Phaeton er smíðaður í hátæknivæddri verksmiðju nálægt miðborg Dresden og þar eru 57 slíkir bílar handsmíðaðir á dag. Vélmenni koma þar lítt nálægt eins og svo títt er við smíði flestra bíla.

Bílaáhugamenn eru margir á því að kaup á þessum bíl séu góð þar sem hann sé mjög vandaður og verðlagning hans, þótt há sé, sé afar hófleg. Hefur hann þótt frábær kaup sem notaður bíll því hann hrynur einhverra hluta vegna hraðar niður í verði en almennt gerist þrátt fyrir gæði hans. Nýr undirvagn Phaeton verður sá sami og í Porsche Panamera- og Bentley-bílum.

mbl.is

Bloggað um fréttina