Brimborg frumsýnir rafmagnsbíl

Citroën C-Zero rafmagnsbíllinn verður frumsýndur hjá Brimborg að Bíldshöfða 8 …
Citroën C-Zero rafmagnsbíllinn verður frumsýndur hjá Brimborg að Bíldshöfða 8 á laugardag milli kl. 12 og 16.

Þeim fer sífjölgandi rafmagnsbílunum sem í boði eru hér á landi. Einn þeirra er af Citroën-gerð, ber nafnið C-Zero og verður frumsýndur í Brimborg á morgun. Með hækkandi heimsmarkaðsverði á bensíni og auknum álögum stjórnvalda er rafmagnsbíll kostur sem sífellt fleirum finnst orðinn fýsilegur.

Með því að festa kaup á rafbíl geta menn sparað tugþúsundir króna í hverjum mánuði þar sem eldsneytiskostnaður dettur algerlega út. Auk þess hafa stjórnvöld afnumið vörugjöld á rafbílum og enginn virðisaukaskattur er greiddur við kaup á Citroën C-Zero.

Það er því ekki nema von að margir velti því fyrir sér af alvöru hvort ekki sé rétt að fjárfesta í rafbíl þar sem fjárhagslegur ávinningur slíkra kaupa getur verið töluverður auk þess sem þeir eru vistvænir og losa ekkert koldíoxíð út í andrúmsloftið. En þar sem margir hafa ekki reynslu af því að eiga rafbíla er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hver sé helsti ávinningur, hverjir hugsanlegir ókostir fylgi slíkum kaupum og hvort rafmagnsbíll sé rétti bíllinn fyrir sig.

Sýningargestum gefst færi á að hitta ráðgjafa Brimborgar sem munu svara spurningum um bílinn og þeir hafa tekið saman lista með 49 algengum spurningum og svörum um Citroën C-Zero. Þar geta menn fengið svör við spurningum á borð við hvað kosti að reka slíkan bíl á ári, hve lengi hleðslan dugi, hvernig árekstrarvörnum sé háttað og hver akstursdrægnin sé. Kynning bílsins stendur frá kl. 12 til 16 á morgun.

mbl.is