Bandaríska bílatímaritið Green Car Journal velur ár hvert grænasta bíl ársins og nú hefur tímaritið valið þá fimm bíla sem til greina koma. Bílarnir eru Ford C-Max, Ford Mondeo, Mazda CX-5, Toyota Prius C og Dodge Dart Aero og einn þeirra hlýtur titilinn grænasti bíll ársins 2013. Listinn er sérstakur að því leyti að á honum eru tvinnbílar (Hybrid), tvinnbílar sem hlaða má með heimilisrafmagni (Plug In-Hybrid) og svo venjulegir sparneytnir brunahreyfilsbílar.
Allir bílarnir eiga það þó sameiginlegt að vera framleiddir í miklu magni og vera á mjög viðráðanlegu verði fyrir almenning. Þessir bílar hafa í leiðinni áunnið sér titilinn „Fimm grænustu bílar ársins“. Einn af þeim sem skipa dómnefndina sem síðan velur einn þeirra sem grænasta bíl ársins er Jay Leno.
Þeir bílar sem unnið hafa titilinn á undanförnum árum eru Honda Civic Natural Gas fyrir árið 2012, Chevrolet Volt fyrir 2011, Audi A3 TDI 2010, Volkswagen Jetta TDI 2009 og Chevrolet Tahoe Hybrid fyrir árið 2008. Hver skyldi það svo vera fyrir árið 2013?