Japanski dekkjaframleiðandinn Yokohama fór um langan veg í sumar til að taka upp auglýsingu fyrir vetrardekkin nýju. Hvorki meira né minna en alla leið til Íslands og var upptökuvettvangurinn á Langjökli.
Japanskt og franskt framleiðslufyrirtæki stóðu sameiginlega að gerð auglýsingarinnar, en íslenska kvikmyndagerðarfyrirtækið Pegasus aðstoðaði við undirbúninginn. Um 60 manns komu að gerð auglýsingarinnar á Langjökli og fóru tökurnar fram á tveimur dögum.
„Þarna var um að ræða nokkuð stórt og kostnaðarsamt verkefni hér á landi, en fyrir tökuna var Lotus Evora, afturhjóladrifinn sportbíll frá Þýskalandi, fluttur sérstaklega til landsins. Útbúin var sérstök 400 metra braut á Langjökli fjórum dögum fyrir tökur, en ástæða fyrir vali Yokohama á Langjökli var gott aðgengi upp á jökul á þessum árstíma og kjöraðstæður til að sýna eiginleika dekkjanna,“ segir Jóhann Jónsson, markaðsstjóri Dekkjahallarinnar.
Á Youtube síðu Yokohama er hægt að sjá auglýsinguna og líka myndband frá gerð auglýsingarinnar.
Dekkjahöllin fékk í fyrra umboð fyrir Yokohama dekk á Íslandi, en Jóhann segir nýju dekkin henta einstaklega vel í íslenskri vetrarfærð. „Yokohama ICEGuard IG35 hefur gúmmíblöndu með loftbólum, kísilögnum og kolefnum. Hún leitar sífellt að festu og er mjúk í eðli sínu. Öflugt snjómunstur og 16 rása naglamunstur tryggir gott grip,“ segir hann.
Dekkjahöllin er nær 30 ára gamalt fjölskyldufyrirtæki með hjólbarða- og smurstöðvar í Skútuvogi 12 og Skeifunni 5 í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum.
agas@mbl.is