Hyundai og Kia bæta svikin

Frá bás Kia á nýafstaðinni bílasýningunni í París.
Frá bás Kia á nýafstaðinni bílasýningunni í París. mbl.is/afp

Suður-kóresku bílaframleiðendurnir Hyundai og Kia báðu viðskiptavini sína afsökunar í dag og segjast skammast sín fyrir að hafa svikið þá með því að ljúga til um eldsneytisnotkun þeirra.

Féllust bílsmiðirnir á í dag, að bæta viðskiptavinum sínum í Bandaríkjunum og Kanada svikin með fjárgreiðslum. Þeir gáfu upp, að bílar þeirra neyttu minna eldsneytis en þeir raunverulega gerðu.

Það voru bandaríska umhverfisstofnunin (EPA) sem leiddi svindlið í ljós. Niðurstaða hennar var sú, að Hyundai og Kia höfðu ranglega tilgreint eldsneytisþörf  fjölda bílgerða af árgerðunum 2011-2013 sem seldar voru í Bandaríkjunum og Kanada.

Ábendingar nokkurra kaupenda um að upplýsingarnar stæðust ekki urðu til þess að rannsókn var hrundið af stað. Reynsla þeirra var að talsvert vantaði á að bílar þeirra drægju þá vegalengd á galloni bensíns sem framleiðendurnir höfðu haldið fram.

Hyundai og Kia segja að um sé að ræða tæplega 1,1 milljón bíla af árgerðunum 2011-2013 sem seldir voru í Norður-Ameríku; um 900.000 í Bandaríkjunum og 172.000 í Kanada.

agas@mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka