Frægt fólk hefur ávallt haft hæfni til að vekja athygli á eigin lífi og athöfnum en stundum líka á því hvernig það hefur látið lífið. Ástæðurnar eru allt frá illvígum sjúkdómum eins og alnæmi og krabbameini til ofneyslu eiturlyfja, morða eða sjálfsmorða.
Því miður hafa margir þekktir og hæfileikaríkir einstaklingar látið lífið um aldur fram í bílslysum og því aldrei getað sýnt hvað í þeim raunverulega bjó. Hér fara nokkur dæmi um það.
Hinn goðsagnakenndi Hollywood-leikari James Dean lifði lífinu hratt og hættulega. Á sjötta áratug síðustu aldar hafði hann gríðarmikil áhrif á ungt fólk og töffaraskap hans voru engin takmörk sett. Líf hans sjálfs var ekki svo mjög frábrugðið þeim lífsstíl sem hann túlkaði í myndum eins og „Rebel Without a Cause“. Eitt helsta áhugamál James Dean utan vinnu var akstur aflmikilla bíla og keppnisakstur. Þann 30. september árið 1955 lagði hann af stað á bíl sínum, Porsche 550 Spyder, sem uppnefndur var „Little Bastard“, í átt að keppnisökubraut þar sem hann ætlaði að taka þátt í keppnisakstri. Svo mikill áhugamaður var James Dean um akstur að hann valdi fremur að aka bíl sínum á keppnisstað en að flytja hann á vörubíl, sem flestir aðrir gerðu.
Það varð honum dýrkeypt því á leið sinni eftir vegi 466 rétt utan Cholame í Kaliforníu kom hann að gatnamótum og mætti þar bíl. Sá ók beint framan á bíl James Dean. Hann dó 10 mínútum síðar. Skömmu fyrir slysið hafði Dean fengið hraðasekt. Enn frekari fyrirboði hörmunganna voru orð leikarans Alec Guinness viku fyrir dauða Dean. Hann sagði við leikarann unga að ef hann stigi inn í þennan bíl væri eitt víst, að hann myndi láta lífið í honum innan viku. Það leið heil vika, en ekki var það þó meira. Eftir dauða sinn var James Dean tilnefndur til tvennra leikaraverðlauna og ótímabær dauði hans gerði hann ef til vill enn goðsagnakenndari en annars hefði orðið. Hann var 24 ára er hann dó.
Prinsessan af Wales, eiginkona Charles Bretaprins, var mikill mannvinur og notaði frægð sína til að draga hin ýmsu mannúðarmál fram í dagsljósið. Frægð hennar dró einnig að sér miskunnarlausa „paparazzi“-ljósmyndara. Eftir skilnað Diönu frá prinsinum tókust ástir með henni og kvikmyndaframleiðandanum Dodi Al-Fayed og fór hún með honum til Parísar 30. ágúst 1997. Að kveldi þess dags reyndu þau að forðast ágengni blaðaljósmyndaranna á feikimikilli ferð sem endaði með því að bíll þeirra lenti á steyptri undirstöðu í undirgöngum. Hin 36 ára prinsessa lifði í fáa klukkutíma eftir slysið en lést af sárum sínum á spítala. Bæði Al-Fayed og bílstjórinn létu einnig lífið. Dauði prinsessunnar fyllti heimsfréttirnar en einnig var mikið fjallað um ágengni ljósmyndaranna sem sannarlega urðu valdir að dauða hennar, sem og það að bílstjóri bíls Diönu og Al-Fayed var undir áhrifum áfengis við aksturinn afdrifaríka. Nokkrir góðgerðarsjóðir voru stofnaðir í hennar nafni eftir látið og þannig hefur nafni hennar og mannúðaráhuga verið haldið á lofti síðan.
Það er fullvíst að rithöfundurinn og ævintýramaðurinn T.E. Lawrence voru einn maður, en hann lifði lífi á við marga. Saga hans varð innblástur Hollywood-myndarinnar Lawrence of Arabia. Hún var afrakstur ferða hans til Miðausturlanda sem breskur liðsforingi þar sem hann hjálpaði Aröbum að hrista af sér tyrkneska herinn.. Það voru ekki bara stjórnmál og stríðsátök sem heilluðu Lawrence, hann var mikill áhugamaður um hraðakstur. Er hann dvaldi í Miðausturlöndum hafði hann mikið yndi af því að aka um eyðimerkurnar á gríðarhraða á Rolls Royce-bíl. Hann lét af störfum fyrir herinn árið 1935, þá aðeins 46 ára gamall. Hann hafði þó sama brennandi áhuga á hraðakstri og þeim adrenalínáhrifum sem honum fylgdu. Á leiðinni í pósthús á yfir 160 km hraða á mótorhjóli sínu missti hann tökin á akstrinum, þeyttist af hjólinu og lést nokkrum dögum síðar af áverkunum. Í jarðarför hans mættu margir af þekktustu áhrifamönnum heims þá, þar á meðal Winston Churchill, og vottuðu þessari hetju með því virðingu sína.
Einn þekktasti herforingi Bandaríkjanna er örugglega George S. Patton. Hann vakti mikinn ótta hjá herjum nasista með klækjum sínum í hernaði seinni heimsstyjaldarinnar. Hann leiddi sigur á þýska hernum í einni frægustu orrustu seinni heimsstyrjaldarinnar, „Battle of the Bulge“. Hann sat, sem oftast hann gerði, í hliðarvagni mótorhjóls í veiðiferð einni árið 1945 í Þýskalandi, á eftir bíl sem leiddi för. Bíllinn sá lenti í árekstri við trukk sem á móti kom og árekstur hjólsins við bílinn fyrir framan varð ekki umflúinn. Enginn meiddist í árekstrinum nema Patton sjálfur og hann varð fyrir slæmum mænuskaða. Patton lamaðist fyrir vikið og lömun hans orsakaði svokallað lungnablóðrek sem dró hann síðan til dauða. Herforinginn sigursæli eyddi stórum hluta ævi sinnar í baráttu með stríðstólum en það var þó mótorhjól með hliðarvagni sem dró hann á endanum til dauða. Allt þetta fræga fólk var öðrum hvatning til dáða eða skemmtunar en lét lífið á örskotsstundu í bílslysum. Orðstír þess lifir þó enn í hugum flestra.