Af hverju hefur þetta ekki verið notað fyrr, mætti spyrja? Í ótalmörg ár hefur verið til málning sem lýsist upp í myrkri við minnsta ljósgjafa en í Hollandi eru menn loks að nýta kostina vegfarendum til góðs. Þar á bær hafa menn málað veglínur með þessháttar málningu og fyrir vikið er hægara fyrir ökumenn að átta sig á legu vegarins.
En það eru fleiri kostir. Einn þeirra er sá að minni þörf er á dýrri upplýsingu vega sem fyrir vikið auka „ljósmengun”. Annar kostur er fólginn í því að málningin sem uppfinningamennirnir hollensku nota getur skipt um lit eftir aðstæðum og varað við lágu hitastigi og hugsanlegri hálku.
Einn stór kostur enn við notkun slíkrar málningar er hversu ódýr lausn þar er á ferð. Uppfinning þeirra hollensku hefur nú þegar verið verðlaunuð sem „Besta framtíðarhugmyndin” er veitt voru verðlaunin „Dutch Design Awards”. Allar líkur eru til þess að hollenskir vegfarendur njóti uppfinningarinnar strax á næsta ári.