Nokkur eftirvænting hefur ríkt eftir nýjum Mercedes-Benz A-Class. Nú er sú bið á enda því hann verður frumsýndur í bílaumboðinu Öskju nk. laugardag, 17. nóvember. Þessi nýja kynslóð bílsins er mikið breytt frá fyrri gerð hvað varðar útlit og aksturseiginleika sem þykja góðir. Þessi netti lúxusbíll hefur vakið mikla athygli nú þegar fyrir fríðleika að innan jafnt sem utan og er hann mun sportlegri bíll en forveri hans af síðustu kynslóð.
Í Mercedes-Benz A-Class er aðgengi fyrir iPhone og hægt að tengja hann við tæknibúnað bílsins og nýta möguleika símans til fulls. Nýjar bensín- og dísilvélar verða í boði í nýjum A-Class sem eru afkastamiklar og eyðslugrannar. Koltvísýringslosunin er aðeins um 99 g/km í umhverfismildustu vélinni.
A-Class verður í boði með tveimur bensínvélum, 1,6 og 2,0 lítra. Þá verða aflmiklar dísilvélar einnig í boði í nýju kynslóðinni. Allar gerðirnar í nýju A-línunni verða með Start/stop-búnaði. Hægt verður að fá bílinn með nýrri sex gíra beinskiptingu eða 7 gíra DCT-sjálfskiptingu. Frumsýningin á A-Class fer fram í Öskju að Krókhálsi 11 nk. laugardag kl. 12-16.