Í uppgjöri Ford fyrir fyrstu níu mánuði ársins kemur fram að síaukin eftirspurn eftir minni bílum hefur minnkað hagnað fyrirtækisins af hverjum seldum bíl. Minnkandi sala á pallbílum, jeppum og stærri fólksbílum sem skiluðu að jafnaði mun meiri framlegð hefur því dregið úr hagnaðarmöguleikum Ford.
Engu að síður er hagnaður Ford mikill því sala Ford-bíla í heild er góð um þessar mundir. Hagnaður Ford fyrstu níumánuði ársins nam 6,47 milljörðum dollara og er meiri en allt árið í fyrra. Hagnaður af veltu var 11,2%, sem þykir mjög gott þar sem meðaltalshagnaður allra bílaframleiðenda á bandaríska markaðnum er ekki nema 5%.
Gengi Ford í Evrópu er ekki eins gott og vestanhafs og gert er ráð fyrir að Ford tapi 1,5 milljörðum dollara á þessu ári og líklega því næsta líka. Í Evrópu mun Ford að öllum líkindum loka þremur verksmiðjum sínum á næstu tveimur árum og segja upp 6.200 starfsmönnum. Ford hefur hins vegar ráðið 5.200 nýja starfsmenn í Bandaríkjunum í ár.
Ford var með 16,8% markaðshlutdeild í Bandaríkjunum í fyrra en er með 15,5% það sem af er árinu. Markaðshlutdeild Ford jókst mjög á árunum 2009 til 2011, en hefur nú fallið aðeins aftur.