Eigendur Toyota Prius bíla í Bandaríkjunum geta andað léttar er þeir kynna sér hvaða bílum líklegast er að sé stolið þarlendis. Það er National Incurance Crime Bureau sem heldur utan um tölur um stolna bíla. Í tölum frá þeim kemur í ljós að Toyota Prius bílar af árgerð 2008-2010 eru þeir bílar sem ólíklegast er að stolið sé. Að meðaltali er einum af hverjum 78 bílum stolið vestanhafs en bara einum af hverjum 606 Prius bílum er stolið.
Ástæða þessa er sögð sú að íhluti í Prius sé ekki að finna í öðrum bílum og því ágirnast þjófar hann ekki og einnig það að hann bilar lítið. Svo virðist sem þjófar steli helst bílum þar sem nota megi mikið af íhlutum í aðra vinsæla bíla eða sömu bíla sem selst hafi mjög mikið af.
Listinn yfir þá bíla sem vinsælastir eru hjá þjófum endurspeglar einmitt þetta. Þar trónir hæst Honda Accord árgerð 1994 og Honda Civic 2006 þar á eftir. Svo koma Ford F-pallbílar árgerð 2006, Toyota Camry 1991 og Dodge Caravan 2000. Allt eru þetta bílar sem seldust mjög vel á sínum tíma og komið er að viðhaldi á.
Hæsta hlutfall stolinna bíla er í Kaliforníu, þá Flórída og svo í New York fylki. Sala á Toyota Prius er einmitt mest í Kaliforníu og er hann vinsælasta eina bílgerðin þar. Samt sem áður er hann ekki vinsæll meðal þjófa og kannski hefur það einnig að gera með það að hann bilar lítið og því er lítil þörf fyrir íhluti í hann.